Fréttaskýring:
Eftir að umferðaröryggismat á mismunandi vegkostum í Gufudalssveit var birt virðist vera fullljóst að R leiðin er úr sögunni. Sú leið fékk falleinkunn í öryggismatinu og því getur Vegagerðin ekki látið framkvæma hana. Vegamálastjóri Bergþóra Þorkelsdóttir hefur sagt alveg skýrt að lög komi í veg fyrir slík áform. Það er einfaldlega bannað með lögum. Vegir „skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru með tilliti til öryggis umferðar, ástands vega, merkinga og annarra þátta sem kveðið er á um í lögum þessum.“ Vilji Reykhólahreppur halda R leið til streitu þarf að breyta leiðinni og þá verður einfaldlega til A3 , sem er útfærsla Vegagerðarinnar á R leiðinni, enda hefur Vegagerðin frá upphafi sagt að R leiðin væri með miklum ágöllum og það yrði að lagfæra þá ef ætlunin væri að halda henni til streitu.
D2 leiðin með jarðgöngum í gegnum Hjallaháls, þó ofarlega í hálsinum til þess að stytta göngin og lækka kostnaðinn, fékk næstverstu útkomuna og umferðaröryggið er nokkuð lakara en í A3 leiðinni og Þ-H leiðinni. D2 leiðin er þar með nánast kominn út af borðinu þegar litið er til þess að hún er líka dýrasti kosturinn af þessum fjórum. Munar þar 6 milljörðum króna á Þ-H leiðinni og D2. Þær tvær síðastnefndu, A3 og Þ-H, fá svipaða einkunn, en þó er Þ-H leiðin betri og er því besti kosturinn af þessum fjórum sem teknar voru til öryggismats.
Þar með er hvorugur kosturinn, sem sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi hafa vilja halda fram og láta kanna sérstaklega, R leiðin og D2, varla lengur raunhæfur kostiu á borði sveitarstjórnar.
Þá stendur eftir val á milli A3 og Þ-H leiðarinnar. Öryggislega eru þeir sambærilegir. Framkvæmdalega er Þ-H tilbúinn en A3 á eftir að fara í umhverfismat og gera þarf rannsóknir á botni Þorskafjarðar og jarðlögum varðandi brúargerðina. Það þýðir að minnsta kosti tveggja ára töf, að mati Vegagerðarinnar, að velja A3. Sú töf gæti hæglega orðið mun lengri, sérstaklega ef kærur koma fram og þeim verði fylgt fast eftir og sú virðist ætla að verða raunin.
Kostnaðarlega er Þ-H leiðin mun ódýrari. Hún kostar um 7,2 milljarða króna en A3 leiðin er talin kosta 11,3 milljarða króna. Óvissan er veruleg í mati á brúarkostnaðinum við A3 og gæti kostnaðurinn hækkað umtalsvert þegar betri upplýsingar liggja fyrir.
Þ-H leiðin er fullfjármögnuð í tillögu að samgönguáætlun sem verður afgreidd á Alþingi innan fárra vikna. Verði A3 leiðin valin verður ekki hægt að setja framkvæmdaferli í gang. Það mun vanta a.m.k. fjóra milljarða og erfitt verður að áfangaskipta verkinu og láta hluta þess bíða þar til síðar þegar fjármagn fæst.
Annar vandi við að velja A3 leið er að tímatöfin verður svo mikil að bæði Vegagerðin og Alþingi munu taka ákvarðanir og nota peningana sem eru tilbúnir, 7 milljarða króna til brýnna verkefna sem verður hægt að vinna og ljúka á meðan beðið er eftir því að A3 komist á framkvæmdastig.
Vegamálastjóri útilokar ekki að leggja til að nota fjármagnið annars staðar en á Vestfjörðum. Bendur hún á líta þurfi til slysatíðni og bæta öryggi ekki síður en nota peningana til framkvæmda á Vestfjörðum.
Sem dæmi má nefna að kostnaðurinn við Þ-H leiðina er meiri en við nýja Ölfusárbrú eða við breikkun Vesturlandsvegar svo tvö dæmi séu tilfærð.
Hreppsnefnd Reykhólahrepps hefur þegar tafið framkvæmdir um liðlega ár með viðsnúningi sínum. Jafnvel þótt Þ-H leiðin verði staðfest nú í janúar munu framkvæmdir ekki geta hafist fyrr en eftir eitt og hálft ár, upp úr miðju ári 2020. Verði A3 niðurstaðan gerist ekki fyrr en í fyrsta lagi 2022 og er það þó mjög óvíst og verulegar líkur standa til þess að það verði 1 – 2 árum síðar. Það hlálega í málinu er að sveitarstjórnarkosningar verða 2022 og þá verður kannski önnur afstaða ofan á í Reykhólahreppi, kannski sú sama og var fyrir kosningarnar í fyrra.
Eitt virðst ólíklegt miðað við svör oddvita sveitarstjórnarinnar, og það er að bera málið undir íbúana. Það væri forvitnilegt að sjá hvernig landið í raun liggur í hreppnum, en áhugi hreppsnefndarinnar á því virðist vera lítill.
-k