Ný útgáfa af íslenskum vegabréfum

Framleiðsla nýrra vegabréfa hefst hjá Þjóðskrá Íslands 1. febrúar næstkomandi. Eldri vegabréf halda gildi sínu þar til þau renna út og því þurfa handhafar vegabréfa ekki að sækja um ný nema eldri vegabréf séu runnin út.

Ný útgáfa vegabréfa hefur verið í undirbúningi síðan 2015. Stofnkostnaður er um 200 milljónir króna og var fjármagnaður af Landamærasjóði ESB, dómsmálaráðuneytinu og Þjóðskrá Íslands.

Aukið öryggi og nýtt útlit

Helstu breytingar felast í auknu öryggi í framleiðslukerfi og vegabréfabókum en útlit breytist einnig. Helstu útlitsbreytingarnar felast í landslagsmyndum á hverri opnu, úr öllum landshlutum, ásamt staðsetningu þeirra á korti. Heiðlóan er jafnframt áberandi, en kápan heldur bláa litnum sem hefur einkennt íslensk vegabréf.

Með nýrri útgáfu af íslenska vegabréfinu er verið að auka öryggi í útgáfu vegabréfa á Íslandi í samræmi við auknar kröfur og alþjóðlega staðla. Undirbúningur fyrir útboð hófst fyrir um tveimur árum en um var að ræða þrenns konar útboð, þ.e. á framleiðslukerfi, vegabréfabókum og traustvottorðakerfi.

Að öðru leyti helst öll þjónusta við útgáfu vegabréfa óbreytt. Sótt er um vegabréf hjá embætti sýslumanna og verð á vegabréfum helst óbreytt. Afgreiðslutími vegabréfa er 2 virkir dagar. Nánari upplýsingar um útgáfu vegabréfa má finna á vegabref.is.

„Við erum afar spennt fyrir því að taka í notkun nýtt framleiðslukerfi vegabréfa. Einnig er útlit nýrra vegabréfa með aðeins breyttu sniði sem mikil vinna hefur verið lögð í og við erum afar ánægð með. Þessar breytingar marka tímamót sérstaklega að því leyti að þarna er verið að taka skref í átt að auknu öryggi bæði hvað varðar framleiðsluferlið og vegabréfabækurnar. Þetta er flókið og mikilvægt verkefni sem við erum afar stolt af,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands um þessar breytingar á framleiðslu vegabréfa.

„Þjóðskrá Íslands hefur staðið vel að breytingum á útgáfu vegabréfa á Íslandi síðastliðin fjögur ár. Breytingarnar auka öryggi íslenskra vegabréfa en mikilvægt er að við séum ávallt vakandi fyrir nýjum leiðum til að tryggja öryggi á þessum vettvangi í takti við alþjóðlegar kröfur og staðla. Það hefur verið ánægjulegt að sjá verkinu vinda fram hratt og örugglega en það klárast nú innan þeirra áætlana sem lagt var upp með. Þá er einnig gott að sjá þann mikla árangur sem náðst hefur við að stytta afgreiðslutíma vegabréfa, sem er nú aðeins 2 dagar,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. 

DEILA