Mokað á morgun í Árneshrepp

Frá Norðurfirði. Mynd: Árneshreppur.

Vegagerðin mun hefja mokstur á morgun norður í Árneshrepp. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti sagði í samtali við Bæjarins besta að það væri kominn töluverður snjór og það hefði snjóað mikið í logni síðustu daga.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar staðfesti að Vegagerðin hefði samþykkt að ráðast í moksturinn sem helmingamokstur. Það þýðir að sveitarfélagið Árneshreppur mun greiða helminginn af kostnaðinum. Miðað er við að fært verði fyrir fjórhjóladrifin ökutæki. Eva kvaðst ekki vita hver kostnaður hreppsins gæti orðið en sagðist vera bjartsýn og skaut á 100 – 150 þúsund krónur.

Ákvörðunin nú á aðeins við þennan eina mokstur, en annars er enginn reglubundinn mokstur næstu mánuði samkvæmt mokstursáætlun Vegagerðarinnar.

DEILA