MIKILL MEIRIHLUTI ÍSLENDINGA VILL SEINKA KLUKKUNNI

Á milli 63% og 64% Íslendinga vilja að klukkunni verði seinkað um 1 klukkustund frá því sem nú er. Á bilinu 36-37% þeirra vilja óbreytta stöðu klukkunnar. Um 23% vilja að með fræðslu verði fólk hvatt til að ganga fyrr til náða og á milli 13% og 14% myndu vilja að skólar, fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.

Þetta kemur fram í nýrri viðhorfskönnun Maskínu.

Svarendur voru 1.373 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 11.-18. janúar 2019.

Norðlendingar vilja einna helst seinka klukkunni um 1 klukkustund (65,8%) en Austfirðingar síst (46,2%).

Íslendingar með heimilistekjur lægri en 400 þúsund eru hlynntastir seinkun klukkunnar (72,1%) og eru einnig andvígastir því að klukkan haldi óbreyttri stöðu en skólar, fyrirtæki og stofnanir hefjist seinna (9,9%). Einhleypir eru ólíklegastir þess að vilja seinka klukkunni (61,4%) og þeir sem ekki eiga maka eru hlynntastir seinkun klukkunnar (78,1%).

Töluverður munur er á viðhorfi til klukkunnar eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk myndi kjósa. Kjósendur Viðreisnar eru hlynntastir því að klukkunni yrði seinkað (80,1%) en kjósendur Miðflokksins andvígastir (50,4% vilja breytingu). Rúmlega 33% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja hafa óbreytt ástand en að fólk sé hvatt til að ganga fyrr til náða, en kjósendur Viðreisnar eru ólíklegastir til þess að vilja það (10,3%).

Vestfirðir og Vesturland eru tekin saman í greiningu á niðurstöðum eftir búsetu. Um 10% færri vilja seinka klukkunni eða um 53% og er það næst minnsti stuðningur við seinkun klukkunnar á landinu. Að sama skapi eru 10% fleiri eða um 33% sem vilja beita fræðslu sé miðað við heildarniðurstöður könnunar.

DEILA