Eldi á laxi í fjörðum landsins hefur aukist á liðnum áratug og eru miklar vonir bundnar við þennan atvinnuveg. Á sama tíma heyrast háværar raddir um skaðleg áhrif laxeldis á umhverfið. Landeldi á laxi hefur fengið mikla athygli hér sem og erlendis. Margir telja að það sé áhugaverður kostur, einkum í tengslum við framleiðslu á matfiski, en einnig fyrir eldi á stærri seiðum fyrir matfiskaeldi. Í dag hafa sex fyrirtæki fengið leyfi til að ala lax á landi í Noregi og margir aðrir aðilar hafa sýnt því áhuga. Þrátt fyrir það er einvörðungu um 0,1% af þeim 2,5 milljónum tonna sem framleidd eru af laxi (í heiminum?) úr landeldi. Ekki er reiknað með að það muni breytast mikið á næstu árum (Helgi Thorarensen prófessor við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum). Áhugi fjárfesta og aðgangur að fjármagni til landeldis á laxi hefur verið afar takmarkaður. Veldur mestu að skýrslur um landeldi á laxi eru gloppóttar, þekking á laxeldi í landkerfum takmörkuð og reynslan ekki góð.
Nýjar upplýsingar frá Noregi
Sameiginleg skýrsla nokkurra vísindastofnanna í Noregi var gefin út í september, en þar er farið yfir kosti og galla þess að færa allt laxeldi á land í Noregi (Analyse av lukka oppdrett av laks-landbasert og i sjø; produsjon, økonomi og risiko; September 2018, NTNU-Ålesund, Sintef, Ocean SNF).
Þar kemur fram að verði allur lax í norsku fiskeldi alinn á landi og notuð til þess svokölluð RAS kerfi (Recirculating aquaculture systems) þarf mikið land undir eldið. Ef öll aðstaða er byggð upp með 10.000 tonna árlegum framleiðslueiningum verður fjöldi eldisstöðvaeininga um 130 og áætluð landnotkun samtals um 11,7 ferkílómetrar. Í RAS eldiskerfum er eldisvatnið endurnýtt að mestu leyti eftir meðhöndlun í kerfi sem hreinsar- og endurheimtir gæði vatnsins.
Landnotkun fyrir eina slíka RAS stöð er áætluð 9 hektarar, en gegnumstreymisstöð þyrfti um 6,4 hektara lands. Þörfin fyrir raforku er 6 kWh fyrir hvert kíló af framleiddum laxi. Heildarraforkuþörf fyrir allt eldi á landi í Noregi er áætluð 7800 GWh og þörfin talinn tiltölulega jöfn hvort sem er fyrir RAS eldisstöð eða gegnumstreymisstöð. Til samanburðar er raforkunotkun í stór Reykjavikur svæðinu um 4800 GWh.
Vatnsnotkun er gríðarleg og áætluð um það bil 52 milljónir rúmmetra á ári í RAS kerfum og 33,7 milljarðar rúmmetra á ári í gegnumstreymisstöðvum.
Stórfelldur flutningur á laxeldi úr sjó í landstöðvar mun einnig leiða til framleiðslu á verulegu magni af seyru, eða um tæplega 240 þúsund tonn af 90% þurrefni. Fáar sjálfbærar og hagrænar lausnir eru tiltækar í dag fyrir seyru.
Kolefnisfótspor vegna lax, sem er alinn á landi í Noregi og fluttur til neytenda í París, er áætlað allt að 5,1 kg af CO2 jafngildi á hvert framleitt kíló, en innan við 3,0 kg af CO2 jafngildi fyrir lax í sjókvíaeldi. Þarna munar rúmum 2,0 kg.
Kostnaður við framleiðslu á landi er áætlaður 43,60 NOK/kg, sem er um 43% hærri framleiðslukostnaður en í sjókvíum sem var 30,60 NOK/kg árið 2016 samkvæmt gögnum norsku Fiskistofunnar. (NOK=norskar krónur). Þetta er fyrir utan kostnað vegna fjárfestinga, sem er tífalt hærri á landi en á sjó.
Landeldi á laxi á Íslandi
Ef þessi norsku gögn eru yfirfærð á íslenskar aðstæður með 20.000 tonna framleiðslu má reikna með að:
- Framleiðslukostnaður í landeldi yrði a.m.k. 43% hærri en við eldi í sjókvíum.
- Fjárfestingarkostnaður í landeldi með RAS eldistækni er um 10 sinnum hærri en í sjókvíaeldi, áætlaður 13.498 NOK á m3eldisrýmis í keri á landi á móti 1.381 NOK í sjókvíaeldi.
- Landnotkun er 15 til 18 hektarar.
- Orkunotkun 120 GWh, en til samanburðar er árleg orkuvinnsla Mjólkárvirkjanna 1,2 og 3, samtals um 67,4 GWh.
- Vatnsnotkun í RAS kerfi er um 800 þúsund rúmmetrar á ári eða 0,025 m3/sek og í gegnumstreymisstöð tæplega 519 milljón rúmmetrar á ári sem er um 16,5 m3/sek. Til samanburðar er meðalrennsli Elliðaáa um 4,9 m3/sek á ári.
- Í landeldi fellur til úrgangur, seyra, sem er áætluð um 3.700 tonn miðað við 90% þurrefnisinnihald sem þyrfti að koma í lóg eða endurvinnslu.
- Kolefnisfótspor í sjókvíaeldi er vel þekktur áhrifavaldur. Þar er samsetning fóðursins lykilatriði, hvaðan það kemur og hvernig þess er aflað. Löngum var kolefnissporið metið 2,5 kg CO2 jafngildi fyrir ætilegan hluta laxins frá Noregi. Nýrri tölur benda hinsvegar til að þessi tala sé hærri eða 2,9 til 3,0 kg CO2 jafngildi fyrir laxaafurð komin til neytenda í París.
- Eldi á landi hefur stærra kolefnisfótspor samkvæmt norskum heimildum eða 4-6 kg CO2 jafngildi á hvert kíló af laxi. Þessi mismunur stafar af mikilvægum þáttum eins og meiri orkunotkun, landnotkun, endingartíma eldisstöðvar og fleiri þáttum.
Að lokum
Eins og glögglega má sjá í greiningu norsku stofnananna og yfirfærslu þeirra niðurstaðna á íslenskar aðstæður er landeldi á laxi óraunhæft ef eldið á að vera útflutningsgrein í samkeppni við laxeldi í öðrum löndum; Noregi, Færeyjum, Skotlandi og fleiri.
Fiskeldi er vaxandi grein hér á landi og nam útflutningur um 7,1% af útflutningstekjum sjávarútvegsins árið 2017 og tekjurnar voru um 14 milljarðar króna. Lax, bleikja og regnbogasilungur eru helstu tegundirnar en laxinn er í sókn og stóð undir rúmlega 61% af útflutningsverðmætum eldisafurða í fyrra. Framleiðsla og útflutningur á laxahrognum og lifandi hrognkelsum eru mikilvægar stoðir í eldinu hér á landi og nam sá útflutningur rúmlega milljarði króna árið 2017. Lætur nærri að heildartekjur í fiskeldi, það er innanlandssala, útflutningur og ráðgjöf/þjónusta hafi verið á bilinu 15 – 17 milljarðar króna á árinu 2017.
„Fjárfesting í eldisrými og búnaði fyrir lax í landeldi er 10 sinnum kostnaðarsamari en í sjókvíaeldi og framleiðslukostnaður er að lágmarki 43% hærri. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu norskra vísindastofnanna“.
Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur.