Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets segir að heildarkostnaðurinn við jarðstrenginn um Dýrafjarðargöng og tenging hans sé um 700 milljónir króna. Tengingarkostnaðurinn einn og sér er um 410 milljónir króna.
Svar hennar við fyrirspurn bb.is um það hvers vegna strengurinn verði ekki tengdur strax og tekinn í notkun heldur beðið allt að 5 ár er svohljóðandi:
„það hefur áður komið fram að lagning strengsins í Dýrafjarðagöngin núna er eingöngu til komin vegna framkvæmda vegagerðarinnar við göngin, en ekki vegna forgangsröðunar Landsnets á verkefnum í svæðisbundna flutningskerfinu á Vestfjörðum. “, þ.e. við notum tækifærið til að samnýta framkvæmdir vegagerðarinnar, en þó með skynsamlega meðferð fjármuna í huga. Þetta er ekki einsdæmi í raforkukerfinu, t.d var lagður strengur í Fáskrúðsfjarðargöng og rör í Norðfjarðargöng án þess að þarna hafi verið tengt strax.
Með tilkomu varastöðvarinnar í Bolungarvík batnaði öryggi mikið á norðanverðum Vestfjörðum. Reynslan af vélinni hefur verið mjög góð. Þessi staða leiði til þess að Landsnet er að endurmeta forgangsröðun framkvæmdanna á Vestfjörðum og ráðast fyrst í framkvæmdir sem skila orkunotendum fyrr aðgang að öruggari rafmagni. Að tengja strenginn strax krefst verulegra fjármuna til viðbótar við strenginn sjálfann. Meta þar hvort þeim fjármunum er betur varið í aðrar framkvæmdir á svæðinu svo sem að hringtenging á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúarnir á suðursvæðinu eru háðir einni tengingu frá Mjólkárvirkjun sem er bilanagjörn og varastöðvar þar orðnar gamlar.“