„Já, nei, sko, sjáðu til, væni. Stór hluti af þessu liði þarna á spítölunum er þar vegna þess að það hefur étið yfir sig. Og svo kýs það íhaldið góði!“
Sá sem mælti svo spaklega fyrir nokkrum árum var enginn annar en þáverandi sóknarherra til Vatnsfjarðaþinga, síra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði. Óvíst er hvort stórum vanda íslenska heilbrigðiskerfisins í dag hafi verið lýst betur í jafn fáum orðum. Þessi eftirminnilegu orð Vatnsfjarðarklerks, sem raunverulega var sálfræðingur ef út í það væri farið, hafa nú hlotið staðfestingu svo um munar. Burtséð þó frá íhaldinu!
Nýlega komu nefnilega inn í Sjónvarp Símans Premium átta nýir heimildarþættir eftir Helgu Arnardóttur sjónvarpskonu undir yfirskriftinni Lifum lengur. Að sögn Helgu er um faglega umfjöllun að ræða, þar sem rætt er við vísindamenn, sérfræðinga og lækna sem horfa áhyggjufullir upp á alvarlegan heilsubrest í samfélaginu vegna óheilbrigðs lífsstíls. „Við erum að borða okkur í gröfina og hreyfa okkur ekki í gröfina, ef svo má að orði komast, og mikilvægt að grípa hratt og örugglega í taumana,“ segir Helga á mbl.is en einnig er rætt við venjulegt fólk um reynslu þess.
Semsagt: Orsök alvarlegs heilsubrests er ofát oft á tíðum og afleiðingin mjög oft spítalavist. Hvað sagði ekki síra Baldur! En hann var sjálfur mat- og lífsnautnamaður eins og margir muna. Þannig að hann vissi hvað hann söng!