Nú stendur yfir fundur Vegagerðarinnar á Reykhólum. Þar kynnir Vegagerðin sjónarmið sín varðandi val á veglínu á milli Bjarkalundar og Skálaness.
Undirbúningur að framkvæmdum við vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness hefur staðið lengi eða allt frá árinu 2004 þegar fyrsta tillaga að matsáætlun var lögð fram.
Frá nóvember 2005 hefur Vegagerðin lagt til B leiðina , sem síðar aðeins breytt fékk nafnið Þ- H leiðin.
Húsfyllir er á fundinum og skólahúsnæðið þétt setið. Margir Vestfirðingar aðrir en íbúar á Reykhólum hafa lagt leið sína á fundinn.
Uppfært kl 20:18.
Magnús Valur Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá vegagerðinni sagði í kvöld í samtali við Bæjarins besta að fundurinn hefði tekist mjög vel. Á fundinum hefðu verið um 150 manns víða að um Vestfirði og reyndar víðar. Margar fyrirspurnir voru bornar fram en fundarmenn voru almennt kurteisir. Stóru tíðindin eru þau að R leiðin féll á umferðaröryggismati og er því ekki valkostur miðað við forsendur sem Vegagerðin starfar eftir. Betur verður gert grein fyrir því máli innan skamms.