G. Hans þórðarson hefur vakið athygli í Bolungavík fyrir framtakssemi. Hann keypti verslunar- og skrifstofuhúsnæði Einars Guðfinnssonar hf við Aðalstræti og hefur unnið að því að breyta skrifstofuhæðunum tveimur í íbúðir. Þegar er lokið við þrjár íbúðir á annarri hæðinni og þær eru komnar í útleigu. Nú er unnið að því að gera 3-4 leiguíbúðir á þriðju hæðinni. Hans segir að til skoðunar sé að byggja hæð ofan á sem yrði fjórða hæðin og þar yrðu tvær íbúðir. Hann segir að hann vilji frekar koma húsnæðinu í notkun og horfa til lengri tíma en freista þess að taka út skjótfenginn gróða.
Þetta er um 100 milljóna króna fjárfesting, segir Hans. Ég er ekki að hugsa um að hagnast og vil frekar leigja á því verði sem leigumarkaðurinn fyrir vestan ber og geta boðið leigjendum öruggan leigurétt. Eitt af því sem Hans hefur til athugunar er að koma á fót óhagnaðardrifnu leigufélagi um þessar leiguíbúðir.
En af hverju fjárfesta fyrir vestan?
„Ég ætlaði alltaf að fjárfesta fyrir vestan og þetta atvikaðist svona. Það er fallegt fyrir vestan. Fjöllin og fegurðin“ segir G. Hans Þórðarson að lokum í stuttu símtali.