Eyrún til starfa hjá Arctic Fish

Eyrún Viktorsdóttir, lögfræðingur.

Eyrún Viktorsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Eyrún mun sinna leyfismálum og öðrum lögfræðiverkefnum innan fyrirtækisins ásamt ýmsum verkefnum sem snúa að frekari þróun og uppbyggingu Arctic Fish. Hún hóf störf núna um áramótin.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arctic Fish. 

Eyrún lauk meistaranámi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík árið 2017. Hún hefur grunn úr líffræði frá Háskóla Íslands og var hún formaður Haxa, hagsmunafélags líffræðinema 2012-2013. Áður sinnti Eyrún rannsóknum á sviði samkeppnisréttar og hlaut hún styrki frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Samkeppniseftirlitinu árið 2017 til þess. Þá starfaði hún sem lögfræðingur hjá Dattaca Labs árið 2018. 

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri á viðskiptaþróunarsviði sagði mikla þörf fyrir löglærðan starfsmann og að Eyrún væri þegar komin á kaf í vinnu því tengdu.

DEILA