Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, lagði áherslu á mikilvægi þess að mæta nýju ári með bjartsýni og æðruleysi í nýársprédikun sinni sem hún flutti í Dómkirkjunni í dag.
„Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalaausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem. Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir. Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni.”
Þrátt fyrir mikilvægi þess að ganga inn í framtíðina með jákvæðni að leiðarljósi þá benti hún á þær mörgu áskoranir sem mannfólkið stendur frammi fyrir. Eftirlitssamfélagið sem hún las um í verkum George Orwell sem unglingur er komið óþægilega nálægt raunveruleikanum og aðgerðir að varðveita umhverfið mega ekki bíða lengur.
„Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins. Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls. Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.”
Einnig notaði hún tilefnið til að óska Úkraínumönnum til hamingju með nýstofnaða þjóðkirkju en tengsl þeirra við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna hafa verið viðkvæm síðan deilurnar um Krímskaga hófust árið 2014.
„Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.”
Predikunina í heild má finna undir flokknum aðsendar greinar.