Auðlindahagfræðingur verður heiðursdoktor

Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri veitir Rögnvaldi Hannessyni prófessor emeritus við háskólann í Bergen heiðursdoktorsnafnbót á sviði auðlindahagfræði.

Heiðursdoktorsnafnbótina hlýtur Rögnvaldur fyrir störf sín á sviði auðlindahagfræði og sérstaklega fyrir rannsóknir og rit um fiskihagfræði og fiskveiðistjórnun. Rögnvaldur Hannesson fæddist að Svínhólum í Lóni 1943, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1963, „Fil. kand.“ prófi með hagfræði sem aðalgrein 1970 og „Fil.dr.“ prófi í hagfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 1974 eftir framhaldsnám 1972-73 við University of British Columbia í Vancouver, Kanada. Heiti doktorsritgerðar Rögnvaldar var „Economics of Fisheries: Some Problems of Efficiency“.

Rögnvaldur Hannesson, hagfræðingur.

Rögnvaldur er heimskunnur auðlindahagfræðingur sem samið hefur níu útgefnar bækur, ritstýrt nokkrum öðrum bókum og birt yfir 100 ritrýndar greinar og bókarkafla. Rögnvaldur var einn af fyrstu kennurum við Háskólann á Akureyri en hann kenndi fiskihagfræði við sjávarútvegdeild skólans.

Í tilefni af veitingu heiðursnafnbótarinnar verður haldin ráðstefna á sviði sjávarútvegs við Háskólann á Akureyri föstudaginn 18. janúar 2019 kl. 11.40-15.00. Í framhaldi af henni verður blásið til hátíðar í hátíðarsal skólans kl. 16.00-17.00 þar sem Rögnvaldi verður veitt heiðursdoktorsnafnbót.

Yfirskrift ráðstefnunnar er „Fiskveiðar og þjóðarhagur” og þar mun Rögnvaldur ásamt fræðimönnum frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri fjalla um ýmsar rannsóknir á sviði sjávarútvegs svo sem áhrif skipa og veiðarfæra á umhverfið, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, stærð einstakra fiskistofna, virðiskeðju í sjávarútvegi og ýmislegt fleira. Einnig munu fulltrúar atvinnulífs og félagasamtaka halda erindi um starfsemi í sjávarútvegi.

DEILA