Anna Björg Þórarinsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Strandagaldurs, sem er sjálfseignarstofnunin sem stendur á bak við uppbyggingu og rekstur Galdrasýningar á Ströndum. Anna Björg er með háskólapróf í ferðamálafræði og þýsku frá Háskóla Íslands og skrifaði á sínum tíma lokaverkefni sitt um þróun og starfsemi Strandagaldurs. Síðar starfaði Anna Björg um tíma á Galdrasýningunni og Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík sem hefur síðustu árin verið samstarfsverkefni Strandagaldurs og sveitarfélagsins Strandabyggðar. Hún hefur því bæði reynslu og þekkingu á starfseminni. Að auki hefur Anna Björg fjölbreytta reynslu á sviði ferðamála og er menntaður leiðsögumaður.
Í fréttatilkynningu frá stjórn Strandagaldurs segir að það sé stjórn Strandagaldurs mikið gleðiefni að tilkynna um ráðningu Önnu Bjargar og bjóða hana velkomna til starfa.
Þá urðu breytingar á skipan stjórnar á stjórnarfundinum á laugardaginn.Jón Jónsson þjóðfræðingur tók við sem stjórnarformaður af Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi sem hefur staðið við stjórnvölinn í fjölda ára. Stjórn Strandagaldurs skipa Jón Jónsson, Magnús Rafnsson, Ólafur Ingimundarson, Þórunn Einarsdóttir og Valgeir Benediktsson.