Af hverju flutti ég vestur?

Auðvelda svarið við því hvers vegna fólk flytur á milli landshluta og jafnvel til útlanda er að
það er að elta ástina sína og þau ákveða í sameiningu að búa á öðrum stað og það er ekkert ósvipað í mínu tilfelli.

Ég var umsjónarmaður með unglingadeild Björgunarsveitarinnar Kyndils þegar við Alda
hittumst á umsjónarmannamóti á Gufuskálum en hún var þá með unglingadeildina Vestra hér á Patró. Þar hittumst við fyrst og eftir það þróaðist vinátta okkar í sambandi og við ákváðum að byrja að búa í Mosó og keyptum okkur íbúð þar. Þar áttum við heima í þrjú ár og unnum í Reykjavík. Þar af leiðandi eyddum við að okkar mati of miklum tíma á hverjum degi í bíl við að komast á milli staða. Við eignuðumst okkar fyrsta barn og vorum í fæðingarorlofi sem reyndar var ekki eins langt og það er núna. Ef annað okkar langaði að vera lengur heima þá sáum við að einn möguleikinn var að flytja út á land, þar sem húsnæðisverð væri lægra og kannski ekki eins dýrt að lifa og auðveldara að ná endum saman. Það hefur komið í ljós að  þegar allt er tekið saman þá er það raunin.

Fyrir mitt leiti var ég orðinn 29 ára og búinn að eiga heima í Mosfellssveit alla mína æfi, sem þá reyndar var orðinn Mosfellsbær og farið að fjölga verulega í þessari sveit. Ég fór að hugsa hvort það væri ekki allt í lagi að prófa að eiga heima einhversstaðar annarsstaðar. Þannig að ég var til í að flytja út á land og prófa það, sagði vinum mínum að ef það væri ekki skemmtilegt þá kæmi ég bara til baka en ég er ekki farinn ennþá eftir 19 ár.

Það hefur einmitt sýnt sig að starf í björgunarsveitum getur verið mikill áhrifavaldur í lífi
einstaklinga og meðal annars nokkur sambönd þróast í gegnum það starf. Það að ala upp ungt fólk til björgunarsveitarstarfa er mjög göfugt og ég lagði mikinn metnað þannig að vel tækist til. Á þessum árum heyrði ég einmitt af kínversku máltæki sem var einhvern veginn svona:

Ef  þú hugsar eitt ár fram í tímann skaltu gróðursetja fræ og þú færð uppskeru árið eftir, ef þú hugsar 10 ár fram í tímann skaltu gróðursetja tré, ef þú hugsar 100 ár fram í tímann skaltu mennta fólkið.

Eitthvað fór þetta nú reyndar öfugt ofaní félaga mína þegar ég útskýrði þetta fyrir þeim. Eftir það vildu þeir meina að það væri mynd af mér utan á Búnaðarbankanum að sá
fræjum. Þá fattaði ég fljótlega að ég pæli stundum of mikið í hlutunum, en það er bara ég.

En upp úr þessari unglingadeild hafa meðal annars myndast sambönd sem halda enn í dag.
Ég hef komist að því að mér líkar vel í litlum samfélögum, það er tekið eftir þér og erfiðara að felast inn um fjöldann. Síðan verður þú bara að vera viðbúinn því að ef þú gerir eitthvað í samfélaginu þá er talað illa um þig, en einnig skemmtilegri hlutir eins og grín gert að þér á Þorrablóti. Við ákváðum fyrir nokkrum árum að tala bara við jákvætt fólk og það hefur góð áhrif á sálarlífið. En að búa í litlu samfélagi þykir mér hafa fleiri kosti en galla og okkur líður mjög vel hér á svæðinu. Það er sennilega ástæðan fyrir því af hverju ég hef ekki farið til baka.

Mig langar að skora á Þröst Reynisson að segja næst frá því hvers vegna hann flutti vestur. Ég heyrði alla vega skemmtilega frásögn af því en óvíst hvort hans útgáfa sé eins krydduð og sú sem ég heyrði.

Davíð Rúnar Gunnarsson
Slökkviliðsstjóri í Vesturbyggð og Tálknafirði

DEILA