Á að breyta klukkunni ?

Forsætisráðuneytið hefur  birt greinargerðina „Staðartími á Íslandi – stöðumat og tillögur“ í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Samþykkt var að setja málið í opið samráð við almenning á ríkisstjórnarfundi 21. desember sl. og verður tími samráðs tveir mánuðir.

Greinargerðin var unnin í forsætisráðuneytinu og í henni er skoðað hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins. Rannsóknir sýna að nætursvefn Íslendinga er almennt séð of stuttur en slíkt getur verið heilsuspillandi og haft áhrif á námsárangur og framleiðni í atvinnulífinu. Sérstaklega er þetta áhyggjuefni vegna barna og ungmenna. Ein líkleg skýring er að klukkan sé ekki í samræmi við hnattræna legu landsins.

Almenningi, atvinnulífi og stjórnsýslu er nú boðið að taka þátt í samráði og leggja fram sín sjónarmið um stöðumat, framtíðarsýn og áhrif mögulegra breytinga. Í kjölfarið verður svo unnið úr ábendingum og stefna mótuð af hálfu stjórnvalda.

Settir eru fram eftirfarandi valkostir í greinargerðinni:
A. Óbreytt staða, klukkan er áfram 1 klst. fljótari en ef miðað væri við hnattstöðu, en með fræðslu er fólk hvatt til að ganga fyrr til náða.
B. Klukkunni seinkað um 1 klst. frá því sem nú er, í samræmi við hnattstöðu landsins (dæmi: kl. 11:00 nú, verður kl. 10:00 eftir breytingu).
C. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefja starfsemi seinna á morgnana.

DEILA