Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu leiklistarráðs um styrki til atvinnuleikhópa fyrir árið 2019. Alls bárust 86 umsóknir frá 81 atvinnuleikhópi og sótt var um ríflega 469 milljónir króna.
Ákveðið hefur verið að veita 99 milljónum króna til 19 verkefna sem skiptast þannig: níu leikverk, tvö barnaleikhúsverk, fimm dansverk, tvö brúðuleikhúsverk og eitt tónleikhúsverk. Leikhóparnir eru frá Akureyri, Hafnarfirði, Hellissandi, Hvammstanga, Kópavogi, Mosfellsbæ, Reykjavík og Seyðisfirði. Leikhópurinn Kvenfélagið Garpur fær hæsta styrkinn í ár eða tæpar 12 milljónir. Árangurshlutfall umsækjenda er nálægt 22%.
Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum fékk ekki náð fyrir augum Mennta- og menningarmálaráðherrans en fjórir leikhópar af landsbyggðinni fengu styrk.
Tveir hópar eru frá Akureyri, Umskiptingar sem fær 8,5 mkr styrk og leikhópurinn Artik fékk 6,2 mkr styrk. Einn leikhópur Handbendi brúðuleikhús frá Hvammstanga fékk 3,4 mkr og hópurinn Lið fyrir lið frá Seyðisfirði fékk 2,2 mkr.