Vesturbyggð hefur vakið athygli á því að á nýju ári taka gildi ný lög um lögheimili og aðsetur. Hér eftir skal tilkynning um breytingu á lögheimili innan lands og aðsetri gerð rafrænt eða á starfstöðvum Þjóðskrár Íslands. Sveitarfélög munu því ekki lengur taka við tilkynningum um breytt lögheimili.
„Séu einhverjir íbúar sveitarfélagsins í þeirri aðstöðu að geta ekki tilkynnt um breytingu á lögheimili innan lands og aðsetri með rafrænum hætti er unnt að fá leiðbeiningar og aðstoð í ráðhúsi Vesturbyggðar, Aðalstræti 75, Patreksfirði. Mikilvægt er að lögheimili sé rétt skráð í þjóðskrá. Vesturbyggð óskar eftir því að þeir íbúar sem hafa látið undir höfuð leggjast að tilkynna um breytingu á lögheimili sínu að bregðast við sem allra fyrst,“ kemur fram hjá sveitarfélaginu.
Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingar eiga fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á fleiri en einum stað í senn. Þá er óheimilt að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis. Föst búseta er sá staður þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Frá og með 1. janúar 2019 verður hjónum heimilt að eiga sitthvort lögheimilið, kjósi þau það. Er þá átt við þær aðstæður þegar hjónin eru bæði sammála um slíkt fyrirkomulag og skulu þau bæði undirrita tilkynningu annars þeirra um breytt lögheimili. Meginreglan verður þó áfram sú að hjón í samvistum skuli hafa sama lögheimili enda er það talið í samræmi við afstöðu og raunveruleika meginþorra hjóna.
Leiki vafi á því hvar föst búseta einstaklings er, t.d. vegna þess að hann býr á fleiri en einum stað og í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína enda hafi hann þar búsetu. Um er að ræða aðalatvinnu þegar hún gefur tvo þriðju hluta af árstekjum eða meira.
Sæbjörg
sfg@bb.is