Vesturbyggð: fasteignaskattur lækkar

Fjárhagsáætlun Vesturbyggðar fyrir 2019 hefur verið afgreidd í bæjarstjórn. Fasteignaskattur í íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,47% af fasteignamati í 0,45%. Lækkunin þýðir að tekjur bæjarsjóðs verða 1,5 milljón króna lægri.

Heildartekjur sveitarfélagsins verða 1,5 milljarður króna gangi fjárhagsáætlunin eftir.  Þar af verði skatttekjur um 1 milljarður króna. Hæsti einstaki tekjuliðurinn er útsvar  588 milljónir króna. Framlag úr jöfnunarsjóði verður 373 milljónir króna.

Heildarútgjöld verða 1,4 milljarður króna og fjármagnskostnaður til viðbótar er áætlaður 95 milljónir króna. Lokarekstrarniðurstaða verður 1,5 milljón króna.

Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að skuldahlutfall sveitarfélagsins verði í árslok 2019, miðað við 149 milljón króna í fjárfestingar, 118,7%.

Fræðslu- og uppeldismál

Fræðslu- og uppeldismál eru stærsti útgjaldamálaflokkurinn. Útgjöld eru áætluð 523 milljónir króna á næsta ári miðað við 491 milljónir í ár. Útgjöld til þessa málaflokks hafa aukist verulega á síðustu árum vegna jákvæðrar íbúaþróunar og fjölgunar barna í sveitarfélaginu. Áfram verður boðið upp á talþjálfun og sálfræðiþjónustu í skólum Vesturbyggðar á árinu 2019. Á árinu 2018 fór ekkert skólastarf fram í Birkimel en grunnskóla- og leikskólabörnum af Barðaströnd er ekið á Patreksfjörð og hefur það gefist vel. Húsnæðið í Birkimel hefur m.a. verið nýtt fyrir félagsstarf aldraðra á Barðaströnd.Lengd viðvera verður áfram í boði á Patreksfirði og Bíldudal. Gjald fyrir lengda viðveru hækkar um 5% á milli ára og verður hámark á gjaldi á mánuði fyrir hvert barn fyrir fulla vistun með hressingu 22.000 kr.
Hafnarsjóður

Heildartekjur hafnarsjóðs hækka umtalsvert á milli ára og eru áætlaðar 155 milljón króna en gjöld eru áætluð 121 milljón króna. Rekstur hafnarsjóðs er því áætlaður jákvæður upp á 33 milljónir króna á árinu 2019. Betri afkomu hafnarsjóðs má rekja til aukinna umsvifa í fiskeldi í Vesturbyggð, aukningu á komu skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar og strandsiglinga Samskipa til Bíldudalshafnar.

Vegna aukinna umsvifa við Bíldudalshöfn gerir fjárhagsáætlunin ráð fyrir að stöðugildi við höfnina verði aukið um 50% en áfram verði samstarf milli hafnarsjóðs og þjónustumiðstöðvar um nýtingu starfsmanna. Þá er gert ráð fyrir að starf hafnarstjóra verði 50% og verði ekki lengur hluti af starfi bæjarstjóra eins og verið hefur síðust ár. Breytingar þessar eru til samræmis við þau miklu umsvif sem orðið hafa við hafnir sveitarfélagsins.

DEILA