Hjá Vestfirska forlaginu var að koma úr prentvélunum bókin Vestfirðingar til sjós og lands 2. hefti. Bókin sú arna hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Bæði í gamni og alvöru. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Og varðveita ýmsar sögur og sagnir sem að öðrum kosti hefðu farið í glatkistuna. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga.
Ef einhver ber af í þjóðfélagi okkar, eða er öðruvísi en aðrir, er hann oftar en ekki Vestfirðingur eða af vestfirskum ættum. Svo segja sumir. Og bæta jafnvel við: Manngildi meta Vestfirðingar í dugnaði og slíkum eiginleikum, en síður í peningum. Gamansemi er þeirra lífselexír.
Meðal höfunda í þessari Vestfjarðabók eru Guðbjartur Gunnarsson úr Súgandafirði, Björn Ingi Bjarnason og Guðmundur St. Gunnarsson úr Önundarfirði, Gunnlaugur Júlíusson af Rauðasandi, Hafliði Jónsson frá Eyrum, Guðrún Björnsdóttir, Jón Strandberg og Bjarni G. Einarsson úr Dýrafirði og Sigurður Þórðarson frá Laugabóli í Djúpi.
Um hvað eru þau að skrifa? Jú til dæmis um Alla á Laugabóli, Ástar-Brand, Öskubuskur og fyrsta kossinn, búferlaflutning yfir Glámu, Antonov vélina á Hnjóti, Proppé bræður, hljómsveitina Æfingu 50 ára, Þóru Pálsdóttur, sem hjúkraði Jóni Sigurðssyni síðustu stundirnar og Vigdísi Finnbogadóttur í Hrafnseyrarkapellu 3. ágúst 1980, svo eitthvað sé nefnt.