Fjölnir Ásbjörnsson sóknarprestur í Holtsprestakalli hefur í mörgu að snúast um jól og áramót, auk skírnar og hjónavígslu er aftansöngur eða hátíðarguðsþjónustur í öllum kirkjum í prestakallinu. Á liðnum árum hefur það einkum verið færð og veður sem hafa valdið sóknarpresti áhyggjum og hefur það komið fyrir annað slagið í gegnum árin að ófært hefur verið í sumar kirknanna og helgihald því riðlast með einhverjum hætti. Nú ber svo við að veður og færð eru með besta móti og hefur það meðal annars skilað sér í afbragðsgóðri kirkjusókn.
Já, söngfólk og tónlistarfólk leggur á sig ómælda vinnu til þess að þessar jóla- og áramótaguðsþjónustur verði sem bestar og það takist að skapa sanna jólastemningu, það er því ánægjulegt þegar allt gengur upp og fólk getur mætt til kirkju án þess að leggja sig í erfiðleika í ófærð og óveðri. – segir Fjölnir Ásbjörnsson
Um þessar mundir eru einmitt 200 ár síðan sálmurinn Heims um ból var frumfluttur og vegna þess hversu milt var í veðri var ákveðið að ljúka jólamessunni með því að ganga út úr kirkjunni og syngja sálminn undir berum himni. Þetta hlýtur að teljast nokkuð sérstakt miðað við árstíma og er ekki vitað til þess að þetta hafi verið gert áður á jólum.
Sr. Fjölnir deildi myndbandi frá messulokunum á Facebooksíðu sinni og hefur það vakið feikileg viðbrögð og verið deilt margsinnis.