Út er komin bókin þorpið sem svaf eftir Flateyringinn Reyni Traustason.
Þorpið sem svaf gerist í litlu byggðarlagi. Sögur af fólki og örlögum þess. Kvótinn er seldur og vinnan fer. Kóngarnir geyma auð sinn í aflandinu. Eftir situr fólk í sárum. Þetta eru sögur af svindli ekki síður en ást og kærleika. Fossarnir eru þurrkaðir upp. Heiðinni er sökkt til að framleiða rafmagn fyrir stóriðju. Peningamenn græða á meðan náttúran grætur. Allt selt og hreinleikinn horfinn. Þeir sem sjá sjálfa sig í sögunum gera það á eigin ábyrgð. Sögurnar eru blanda af skáldskap og raunveruleika.
Reynir Traustason les upp úr bók sinni á morgun ásamt fleiri höfundum, fimmtudag kl. 17-19 í Húsinu á Patreksfirði og kl. 20-22 í Hópinu á Tálknafirði.
Hér er brot úr bókinni birt með leyfi höfundar:
„Aðalsteinn Hrafn Bergvinsson, forstjóri Vammherja, hefur lofað mér því að reksturinn hér verði með óbreyttu sniði. Eins og hann orðaði það við mig í símann áðan verða skip Sægreifans áfram rauð og gerð út frá Kvóteyri.“
Systurinni varð augljóslega rórra og hún sagðist svo sem geta samþykkt þetta fyrst samruninn myndi engu breyta fyrir þorpið.
„Mér líður betur eftir að hafa heyrt þetta sjónarmið,“ sagði hún og það var léttara yfir henni. Hún tók upp dós og baðmullarhnoðra og púðraði yfir nefbroddinn.
„Við skulum þá ganga til atkvæðagreiðslu um formlegan samruna Sægreifans hf. á Kvóteyri við Vammherja hf. á Túneyri,“ sagði forstjórinn. „Þeir sem eru samþykkir rétti upp hönd,“ bætti hann við og í sömu andrá lyftust þrjár hendur til himins, í áttina til Guðs sem hafði bænheyrt þau.