Þjóðarsjóður: frumvarpið lagt fram í gær

Lagt hefur verið fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um Þjóðarsjóð.

Markmið frumvarpsins er að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir eins og segir í fyrstu grein þess.

Veita skal framlög til Þjóðarsjóðs sem eru jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hefur haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum. Þá getur sjóðurinn veitt viðtöku og ávaxtað aðra fjármuni sem Alþingi ákveður að leggja til hans í fjárlögum.

Gert er ráð fyrir að veita úr sjóðum fé til ríkissjóðs, allt að helmingi eigna sjóðsins á hverjum tíma, verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skakkaföllum af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir eða sem stafa af því að stjórnvöld hafa óhjákvæmilega þurft að gera ráðstafanir til að bregðast við slíku áfalli.  Sett eru þau mörk að áfall á fjárhag ríkissjóðs svari til a.m.k. 5% af meðaltekjum undanfarinna þriggja rekstrarára.

Telji fjármálaráðherra vera ástæðu til þess að sækja fé í sjóðinn leggur hann tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi sem þarf að veita samþykki sitt.

Fimm manna stjórn verður yfir sjóðnum og skipar fjármálaráðherra þá alla. Þrír eru tilnefndir af Alþingi, einn af forstæisráðherra og sá fimmti af fjármálaráðherra og er hann  formaður stjórnarinnar. Formaðurinn er skipaður til 5 ára , en aðrir stjórnarmenn til þriggja ára.  Stjórn sjóðsins hefur yfirumsjón með rekstri hans og fjárfestingum.

Miðað er við að lögin taki gildi í upphafi árs 2020.

Í greinargerð sem fylgir með frumvarpinu kemur fram að tilefni lagasetningar um stofnsetningu varúðarsjóðs er einnig það að fyrirséð er að ríkissjóður muni á komandi árum geta haft umtalsverðar nýjar tekjur af arðgreiðslum eða auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum vegna nýtingar á orkuauðlindum á forræði ríkisins, einkum frá Landsvirkjun.

Vikið er að lífeyrisskuldbindingum ríkissjóðs, en ófjármagnaðar skuldbindingar eru um 620 milljarðar króna segir í greinargerðinni og ennfremur að til álita gæti komið að nýta viðbótartekjur frá orkufyrirtækjum til að mæta þeim.

Skynsamleg er „að stefnt verði að því að framtíðarstærð sjóðsins verði nálægt 250–300 ma.kr. eða nærri tíu hundraðshlutar af landsframleiðslu.“

Mat á mögulegum tekjum er afar lauslegt í greinargerðinni , en þó segir að miðað sé við að tekjur ríkissjóðs gætu aukist um 10 milljarða króna á ári vegna nýtingar á orkuauðlindum og er því miðað við a til sjóðsins yrði lagt árlega jafnhárri upphæð.

DEILA