Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fékk í gær afhenta skýrslu með niðurstöðum rannsóknar á áhrifum friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu í næsta umhverfi. Í tilkynningu frá Umhverfisráðuneytinu segir að rannsóknin, sem tók til 12 svæða á Íslandi, sýni að efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á Íslandi eru ótvírætt jákvæð.
Matsaðferðinni er svo lýst í skýrslunni:
„Notað er líkan til þess að meta áhrif friðlýstra svæða á atvinnu og tekjur í nágrenninu, svonefnt MGM2-líkan (e. Money Generation Model). Það er ættað frá Bandaríkjunum og er mikið notað þar, en það hefur einnig til dæmis verið nýtt til þess að leggja mat á áhrif finnskra þjóðgarða á atvinnulíf í nánasta umhverfi þeirra. Í líkaninu eru margfölduð saman útgjöld hvers ferðamanns, fjöldi þeirra á hverjum stað og sérstakur margfaldari. Útkoman sýnir mat á áhrifum af útgjöldum ferðamanna á framleiðslu og atvinnu í næsta nágrenni staðanna sem nefndir eru á mynd 1. Nágrenni er hér talið ná 50 km í burtu.
Tölur um fjölda ferðamanna á hverjum stað eru langflestar frá Rögnvaldi Ólafssyni og Gyðu Þórhallsdóttur, en þau hafa um árabil talið ferðamenn í þjóðgörðum og mörgum öðrum vinsælum stöðum í náttúru Íslands. Útgjöld ferðamanna á hverjum stað voru könnuð með viðtölum frá 6. júní til 10. september 2018. Alls var rætt við ríflega 3.000
ferðamenn, 200-350 á hverjum stað. Úrtakið er í minni kantinum miðað við það sem mælt er með. Skoða hefði þurft útgjöld á öðrum árstíma, en aðeins gafst tími til þess að ræða við ferðamenn að sumri til.“
MGM líkanið túlkar áhrifin af útgjöldum ferðamanna vegna Dynjanda þannig ( gestir 2017 voru 80.473), bein staðbundin störf hafi verið 26 og bein störf alls (um allt þjóðfélagið vegna Dynjanda) hafi verið 60. Staðbundin sala – bein hafi verið 135,3 milljónir króna og staðbundin bein efnahagsleg áhrif hafi verið 134,5 milljónir króna. heildarsala bein hafi verið 293 milljónir króna, heildar efnahagslega áhrif 295,3 milljónir króna og heildar skatttekjur 123,4 milljónir króna.