Ofveiði í kolmunna og síld

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í dag reglugerðir um heildarkvóta Íslands í kolmunna og norsk-íslenskri síld fyrir árið 2019. Ekki er í reglugerðunum gert ráð fyrir heimild til handa íslenskum skipum til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld í færeyskri lögsögu árið 2019.

241.000 tonna kvóti fyrir kolmunna

Ráðlögð heildarveiði á kolmunna árið 2019 samkvæmt ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) er 1.143.629 tonn og er það tæplega 18% lækkun frá 2018. Hlutur Íslands samkvæmt kolmunnasamningi frá 2005 var 16,23%. Undanfarin ár hafa bæði Færeyjar og Evrópusambandið aukið hlut sinn í kolmunna um ríflega 47%. Ákvörðun Íslands um 241.000 tonna kvóta miðast við vegna meðalhækkun annarra ríkja og er hlutdeildin því 21,1%.

97.996 tonna kvóti fyrir norsk-íslenska síld

Ráðlögð heildarveiði á norsk-íslenskri síld árið 2019 er 588.562 tonn og er það 53% aukning frá 2018. Þessi aukning er tilkomin þrátt fyrir lakari stöðu stofnsins og skýrist hún af nýrri langtímanýtingarstefnu sem felur í sér hærri veiðidánarstuðul og lægri viðbragðsmörk fyrir hrygningarstofninn. Tekið skal fram að Ísland varaði við þessari breytingu á strandríkjafundi í haust.

Hlutur Íslands samkvæmt síldarsamningi frá 2007 var 14,51%. Á síðustu tveimur árum hafa Norðmenn aukið hlutdeild sína úr 61% í 70%. Ákvörðun Íslands um 97.996 tonna kvóta samsvarar hlutfallslegri hækkun Norðmanna.

Ekki er samkomulag milli starndríkjanna um veiði úr þessum stofnum  með þeim afleiðingum að úthlutaður kvóti er umfram ráðgjöf vísindamanna.

DEILA