Verkefnisstjórn verkefnisins Áfram Árneshreppur sendi frá sér ákall til ríkisstjórnarinnar á föstudaginn var. Skúli Gautason, starfsmaður verkefnisstjórnarinnar sagði í viðtali við bb.is að þetta væri í raun neyðarkall og það væri hans persónulega mat að um líf eða dauða byggðarlagsins væri að tefla.
Aðspurður hvað hefði gerst nýlega sem leiddi til þessa mats hans, sagði hann að einkum tvennt hefði gerst sem hefði verið íbúunum áfall. Það fyrra var að aðeins eitt barn hefði verið á grunnskólaaldri og það hefði farið í annað byggðarlag þar sem væru fleiri börn og hitt hefði verið lokun verslunarinnar, sem hefði líka gengt hlutverki sem samkomustaður sveitarinnar.
Skúli sagði nauðsynlegt að fá jákvæð svör fljótt og það væru einkum breytingar á samgöngumálunum sem gætu snúið þróuninni við. Annar svegra þyrfti að hefjast handa við endurgerð vegar yfir Veiðileysuháls. Kostnaður við verkið er áætlaður um 800 milljónir króna. Hitt atriðið væri að hefja reglubundinn snjómokstur að vetri, en nú væri enginn mokstur frá 5. janúar til 20. mars.
Verkefnisstjórnin sendur ríkisstjórninni 5 tillögur sem hún óskar eftir að nái fram að ganga sem fyrst. Tvær þeirra hafa þegar verið nefndar, en hinar þrjár eru: niðurgreiðsla á flugmiðum flugfragt til Gjögurs, fjármunir til þess að mæta kostnaði við þrífösun rafmagns og lagningu ljósleiðara og loks aukið svigrúm varðandi úthlutun aflaheimilda í sjávarútvegi og greiðslur vegna sauðfjárræktar.
Undir ákallið skrifar verkefnisstjórnin öll, en hana skipa:
Aðalsteinn Óskarsson
Arinbjörn Bernharðsson
Eva Pandora Baldursdóttir
Eva Sigurbjörnsdóttir
Kristján Þ. Halldórsson
Kristmundur Kristmundsson
Linda Guðmundsdóttir
Sigríður Kristjánsdóttir