Um 1800 þátttakendur tóku þátt í fundaröð um mótun menntastefnu til ársins 2030. Alls voru haldnir 23 fræðslu- og umræðufundir út um allt land. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sótti marga fundina og þar fór yfir sýn og áherslur er koma að mótun nýrrar menntastefnu:
„Það var frábært að fá tækifæri til þess að hitta þennan fjölbreytta hóp og finna samstöðu, eldmóð og bjartsýni hjá skólafólki og öðrum er tengjast þessu spennandi verkefni. Ég er þakklát þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóg og miðluðu af þekkingu sinni og reynslu. Hún mun nýtast okkur vel í næstu skrefum við mótun nýrrar stefnu. Þau verða að breikka þennan samstarfsvettvang, kynna verkefnið og kalla eftir sýn og sjónarmiðum fleiri aðila, svo sem atvinnulífsins, háskólasamfélagsins og ýmissa félagasamtaka,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Haldnir voru tveir fundir á hverjum stað og var sá fyrri með forsvarsmönnum sveitarfélags og ábyrgðaraðilum málaflokka mennta-, félags- og heilbrigðismála ásamt fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Skólameistarafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Menntamálastofnun, samtökunum Heimili & skóli, kennaramenntunarstofnunum og aðilum úr stýrihópi um eftirfylgni úttektar menntastefnunnar menntun fyrir alla.
Umræðan á þeim fundum tók mið að helstu áskorunum sem unnið er að á vettvangi sveitarfélaganna og var fundarmönnum tíðrætt um mikilvægi samstarfs kerfa á báðum stjórnsýslustigum. Á mörgum stöðum kom fram góð lýsing á formlegu samstarfi mennta- og félagskerfis og heilsugæslu. Umræða um skort á fagmenntuðu fólki var víða áberandi og einnig mikilvægi aukins stuðnings við starfsfólk. Starfsþróun kennara og skólastjóra var einnig til umræðu svo og hlutverk og þjónusta háskóla við landsbyggðina. Af einstökum áskorunum í menntamálum má fullyrða að áhyggjur vegna þjónustu við börn og ungmenni af erlendum uppruna hafi verið mest áberandi. Fulltrúar sveitarfélaga lýstu margir yfir ákveðnu úrræðaleysi þegar kemur að skipulagi þjónustu við þá nemendur sem til dæmis tengist skorti á þekkingu og hæfni til að mæta þörfum þeirra.
Síðari fundirnir á hverjum stað voru með fulltrúum kennara, skólastjórnenda, frístundastarfsfólks og foreldra á skólastigunum þremur. Auk þess voru boðaðir fulltrúar frá skólaskrifstofum og skóla- og félagsþjónustu. Viðfangsefni þeirra funda var menntastefnan „menntun fyrir alla“, sem hefur verið í gildi hér á landi frá árinu 2008 og mikilvægi lærdómssamfélags í samhengi við skólaþróun. Þar var efnt til umræðna um helstu hindranir sem í vegi eru fyrir árangri hugmyndafræðinnar um menntun fyrir alla. Fyrir liggja niðurstöður vinnuhópa á fundunum 23 sem nú verður farið í að greina og vinna úr.
Eftir áramót verða enn fremur skipulagðir fundir með ungmennum og tónlistarskólakennurum. Stýrihópur verkefnisins mun fljótlega ræða og taka ákvarðanir um eftirfylgni fundaraðarinnar og móta næstu skref í þessu mikilvæga verkefni.