Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.
Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.
Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.
Fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir
Ráðherra fjallaði um fjölmargar áskoranir fyrir þjóðir heims sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. „Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á Netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á Netinu með tilheyrandi pakkasendingum innanlands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni.
Þrjú stór viðfangsefni í áætluninni eru háð skilyrði um sérstaka viðbótar fjárveitingu að mati ráðherra. Í fyrsta lagi innleiðing á NIS tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarks póstþjónustu. Og loks í þriðja lagi sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum auk útbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða. Ráðherra minnti á að landsátakið Ísland ljóstengt væri þegar fjármagnað en það verkefni hafi reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.
Ör endurskoðun mikilvæg
Þingsályktunartillögur um fjarskiptaáætlun voru samdar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.
Samkvæmt lögum skal stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra segir reglulega og öra endurskoðun mikilvæga þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til taki hröðum breytingum. Árlega verður gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunar.