Landnámsbýli í Sandvík á Ströndum

Howell Roberts og Cathrine Stene í Sandvík.

Síðastliðinn ágúst fór fram fornleifarannsókn á Bæ, Sandvík á Ströndum á vegum, Fornleifastofnun Íslands og Háskólans í Björgvin. Verkið var unnið í samstarfi við Bergsvein Birgisson, rithöfund og fræðimann. Upphaf rannsóknarinnar má rekja til þess að bein sáust í rofi við sjávarbakka í Sandvík. Samkvæmt rannsókn Minjastofnunar Íslands var um að ræða öskuhaug. Bein úr haugnum var sent í aldursgreiningu sem leiddi í ljós að það var frá 9. eða 10. öld.

Vestfirðir og Strandasýsla sérstaklega hafa löngum setið á hakanum hvað fornleifarannsóknir varðar og því um þungvægt verkefni að ræða fyrir svæðið.

Minjarnar í Sandvík gefa fræðimönnum færi á að fylla í eyðurnar sem til staðar eru á landnámi Íslands. Svæði sem teljast oftar en ekki afar óhentug til landbúnaðar virðast hafa verið numin tiltölulega snemma. Fiskveiðar og nýting sjávarafurða í efnahagslegum tilgangi kann að vera svarið við þeim vangaveltum en þarfnast frekari rannsókna.

Yfirlitsmynd yfir ruslahaugana í Sandvík.

Fornleifarannsókn 2018
Markmið rannsóknarinnar í sumar var að kanna hvort fleiri mannvirki leyndust í víkinni ásamt því að rannsaka ruslahauginn í rofinu og aldursgreina hann. Fjögur bein voru send í kolefnisaldursgreiningu. Öll reyndust sýnin vera frá seinnihluta 9. aldar eða 10. öld, sem gefur til kynna að þarna hafi fólk komið þegar á landnámsöld. Auk aldursgreininga voru bein úr haugnum greind til tegunda, mikið var um fiska og fuglabein auk beina úr sjávarspendýrum ásamt svína-, kinda/geitabeinum. Ruslahaugurinn var fyrir ofan timburboli og timburplanka sem voru einstaklega vel varðveittir. Talið er að þeir séu hluti af mannvirki en ekki er ljóst hvers konar mannvirki og er þörf á frekari rannsóknum.

Enn sem komið er er ekki ljóst hvers konar búseta var í víkinni en auk ruslahaugsins fannst mannvirki sem bendir til árstíðarbundinnar búsetu. Hvort þarna hafi verið útgerð frá landnámsbýli í grennd er vert að kanna frekar og af hverju hún hefur lagst af?

Mörgum spurningum er enn ósvarað í Sandvík og aðkallandi að rannsaka frekar til þess að skilja betur landnám Íslands, ástæður þess og aðbúnað landnema. Þá er áhugavert að sjá út frá fengnum aldursgreiningum að búseta í Sandvík virðist hafa lagst af þegar á 10. öld. Er það í samhljóðan við að engar sagnir fara af landnámsbænum, hvorki skráðar né í munnlegri geymd. Ef leitað er skýringa á því hvers vegna landnemar í Sandvík hurfu á braut, höfum við tilgátur einar þartil frekari rannsóknir leysa þær af hólmi.

Mikill áhugi er meðal heimamanna um minjar og sögu svæðisins og bar opinn dagur í Sandvík vitni um það. Var hann afar vel sóttur ásamt málþing sem haldið var undir lok rannsóknarinnar. Málþingið var styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Letterstedska sjóðnum. En fornleifarannsóknin var styrkt af Háskólanum í Björgvin og Fornleifastofnun Íslands.

DEILA