Kolefnisspor sjókvíeldisins lítið

Í skýrslu Umhverfisráðgjafar Íslands um kolefnisspor sjókvíaeldisins segir að kolefnisspor tiltekinnar vöru, fyrirtækis eða annarrar rekstrareiningar er sú losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað á tilteknu ári í viðkomandi starfsemi. Notast er við svonefndan GHL leiðarvísi við mat á losuninni. Þá  er í fyrsta lagi um að ræða beina losun vegna starfsemi sem er í eigu fyrirtækisins eða er stýrt af því. Í öðru lagi er um að ræða óbeina losun vegna kaupa fyrirtækisins á rafmagni, gufu, hita eða kælingu. Í þriðja lagi er svo óbein losun í virðiskeðju fyrirtækisins, bæði aðfangamegin (up-stream) og frálagsmegin (down-stream).

Í laxeldi í sjó eru notuð um 1,0-1,5 kg af fóðri á hvert kg af laxi. Nánast allt fóður sem notað var í sjókvíaeldi á Íslandi 2017 kom frá fóðurframleiðandanum Biomar í Noregi. Í því verkefni sem hér um ræðir var uppgefið kolefnisspor fóðurs frá Biomar (1,95 kg CO2íg á hvert kg af fóðri) því lagt til grundvallar útreikningum á þætti fóðurs í kolefnissporinu að viðbættri áætlaðri losun vegna flutninga frá Noregi til framleiðslustöðvar.

Þegar kolefnisspor laxeldis er reiknað er nauðsynlegt að hafa í huga að æviskeið eldislaxa
er u.þ.b. 2 ár frá því að seiði eru sett í kvíar þar til laxinum er slátrað. Fóður sem keypt er
á tilteknu ári er því ekki aðeins notað til að fóðra laxana sem slátrað er á árinu, heldur
einnig laxa sem slátrað verður árið eftir.

Árið 2017 voru engin lyf notuð í sjókvíaeldi á laxi á Íslandi og var því ekkert kolefnisspor vegna framleiðslu og flutnings á lyfjum.  Kolefnisspor vegna framleiðslu og flutnings umbúða er tekið með í útreikninga á kolefnisspori laxeldis í þessu verkefni, með hliðsjón af
opinberum breskum losunarstuðlum.

Losun vegna framleiðslu á rafmagni er óveruleg við íslenskar aðstæður, einkum þar sem rafmagn er framleitt með vatnsafli. Nokkurt magn eldsneytis er notað í laxeldi, einkum dísilolía á báta sem þjónusta eldiskvíarnar en einnig dísilolía og bensín á bíla vegna athafna á landi. Brennsla jarðefnaeldsneytis er ein helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda og þar með ein helsta orsök loftslagsbreytinga. Allt eldsneyti sem keypt er til eldisins er tekið með í útreikningi kolefnissporsins.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá laxeldi á Íslandi nam 31.016 tonnum CO2-ígilda árið 2017 miðað við þær forsendur sem hér er miðað við. Þetta ár nam heildarframleiðslan 9.668 tonnum sem þýðir að kolefnisspor greinarinnar frá vöggu að dreifingarstöð var 3,21 kg CO2-ígilda á hvert framleitt kg af laxi, tilbúnum til neyslu.

Langstærsti hlutinn af kolefnisspori laxeldis á Íslandi (um 93%) liggur í framleiðslu og
flutningum á fóðri. Um 3% stafa af framleiðslu og flutningi umbúða og um 2% af flutningi
afurða til dreifingarstöðvar.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi var um 4.669.000 tonn árið 2016 (að
frátalinni losun vegna LULUCF),26 þannig að losun laxeldisins samkvæmt framanskráðu
er óverulegur hluti af heildinni.

Frekar fáar greiningar hafa verið gerðar á kolefnisspori íslenskra matvæla. Þó má nefna
útreikninga sem gerðir voru árið 2009 á kolefnisspori þorskflaka, þar sem kolefnissporið
reyndist vera 5,14 kg CO2íg/kg af þorski sem veiddur var með botnvörpu en 1,58 kg
CO2íg/kg af þorski sem veiddur var á línu.31 Í þeirri greiningu voru kerfismörkin víðari en
í því verkefni sem hér um ræðir, þar sem afurðinni var fylgt eftir með flutningaskipi til
Rotterdam og þaðan landleiðina til Sevilla á Spáni. Þá má nefna að skv. útreikningum
Environice frá 2017 er kolefnisspor íslensks lambakjöts um 28,6 kg CO2-ígilda á hvert
framleitt kg lambakjöts.

Önnur viðmiðun er kolefnisspor utanlandsferða, en samkvæmt reiknivél Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) hefur flug eins farþega báðar leiðir milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar í för með sér losun á 361 kg CO2 ígilda.  Því má slá því fram að ein Kaupmannahafnarferð samsvari neyslu á u.þ.b. 112,5 kg af laxi.

Skýrsluhöfundar eru Stefán Gíslason og Birna Sigrún Hallsdóttir.

 

DEILA