Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sendi frá sér í dag samþykkt um vegagerð í Gufudalssveit ,þar sem farið er fram á að Reykhólahreppur vinni áfram að því að Þ-H leiðin verði að veruleika sem fyrst. Í samþykktinni segir einnig að það sé eðlileg krafa að bæði löggjafarvald og framkvæmdavald komi að lausn málsins.
Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að í þessu felist vissulega krafa um lagasetningu ef með þarf, þar sem meðal annars yrði bundin endi á kæruferli og kæmi vegagerðinni á framkvæmdastig sem fyrst. Hafdís sagðist opin fyrir því að ræða úrbætur á innansveitarvegum í Reykhólahreppi ef það mætti verða til þess að greiða fyrir lausn málsins, en stefnan væri skýr: nýr vegur samkvæmt Þ-H leið.
Samþykktin er eftirfarandi:
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar biðlar til íbúa og sveitarstjórnar Reykhólahrepps að vinna áfram með öðrum Vestfirðingum við að ljúka endurnýjun Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp sem allra fyrst og leysa þannig eina stærstu hindrunina í samgöngum á Vestfjörðum.
Samgöngur um Vestfirði hafa lengi verið íbúum og fyrirtækjum erfiðar, en á síðustu árum
hefur mikil vinna verið lögð í endurbætur á Vestfjarðavegi. Í fjölda ára hefur algjör sátt og
einhugur ríkt meðal sveitarstjórna á Vestfjörðum um að lögð skuli áhersla á láglendisveg um Gufudalssveit, til að stytta ferðatíma og tryggja samgöngur árið um kring, og hefur
samkvæmt því verið unnið að leið Þ-H. Núna þegar sveitarstjórn Reykhólahrepps virðist ætla að fara aðrar leiðir en áður hefur verið unnið að, fyllumst við eins og aðrir Vestfirðingar ótta um að þessi framkvæmd sigli á ný í strand og að enn og aftur verði málinu frestað.
Framundan er stór ákvörðun sem sveitarstjórn Reykhólahrepps þarf að taka og er þess vænst að við þá ákvörðun verði jafnframt tekið tillit til hagsmuna íbúa og fyrirtækja utan
Reykhólahrepps. Það skiptir alla Vestfirðinga gríðarlegu máli að hægt sé að hefja úrbætur á
Vestfjarðavegi sem allra fyrst, því 60 ára gamlir þjóðvegir eru á engan hátt boðlegir í nútíma samfélagi.
Ábyrgð löggjafans á þessari pattstöðu sem verið hefur er mikil og er hlutskipti
sveitarstjórnarmanna í Reykhólahrepp í því samhengi hreint ekki öfundsvert. Því er eðlileg
krafa að bæði löggjafavald og framkvæmdavald verði tilbúið að koma að lausn málsins. Er því hér jafnframt óskað eftir stuðningi stjórnvalda til að tryggja þessum brýnu samgöngubótum brautargengi og sjá til þess að vegagerð um Þ-H leið á Vestfjarðavegi verði að veruleika sem allra fyrst.