Ísafjarðarbær: 1205 þíg tonna byggðakvóti

Lagt hefur verið fram í bæjarráði Ísafjarðabæjar bréf frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem tilkynnt er formlega um úthlutun 1205 þorskígildatonna byggðakvóta á yfirstandandi kvótaári 2018/19. Kvótinn skiptist á einstök byggðarlög sveitarfélagsins þannig:

Hnífsdalur 222 tonn, Þingeyri 281 tonn, Flateyri 300 tonn, Suðureyri 192 tonn og Ísafjörður 210 tonn.

Reglur um útdeilingu kvótans eru almennar og er að finna í lögum og reglugerðum. Sveitarfélög hafa möguleika á að vissu marki að setja sérreglur. Vilji sveitarstjórn leggja til við ráðuneytið að sett verði sérstök skilyrði varðandi úthlutun byggðakvóta sveitarfélagsins eða einstakra byggðarlaga skal hún skila rökstuddum tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 21. desember 2018. Tillögur sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.
Að fresti liðnum felur ráðuneytið Fiskistofu að auglýsa eftir umsóknum útgerða um byggðakvóta og úthluta til einstakra fiskiskipa samkvæmt þeim almennu úthlutunarreglum sem er að finna í áðurnefndum lögum og reglugerð.

Einnig var lagt fram minnisblað bæjarritara um sérreglur sveitarfélagsins. Þar kemur fram að bæjarstjórn hafi þegar samþykkt að sérreglurnar verði ábreyttar frá síðasta fiskveiðiári.

Helstu efnisatriði sérreglnanna eru að frístundabátar fá 1 tonn hver,  40% af því sem þá stendur eftir skal skipt milli annarra skipa, Því sem þá stendur eftir er skipt milli báta í samræmi við landaðan afla þeirra 2017/18.   Önnur regla er að skylt er að landa byggðakvóta til vinnslu í byggðarlaginu, en sveitarfélagið getur þó samþykkt að aflinn fari til vinnslu utan byggðarlagsins en þó innan sveitarfélagsins.

 

DEILA