Ernir: nýja flugvélin í heimahöfn

Dornier 328 flugvél flugfélagsins Ernis. Mynd: Halldór Sveinbjörnsson.

Í hádeginu lenti á Ísafirði nýjasta flugvél Flugfélagsins Ernir, Dornier 328 tegund sem tekur 32 farþega. Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins var glaður í bragði þegar bb.is hafði samband við hann og sagði að vélin væri nú í fyrsta sinn í heimahöfn. Sagðist hann vera að íhuga að gefa vélinni vestfirskt nafn við gott tækifæri.

Það væri kannski ekki úr vegi að lesendur bb.is kæmu með hugmyndir að nafni sem yrði svo komið til Harðar til athugunar.

Flugið kom til vegna anna hjá Flugfélagi Íslands sem fékk Flugfélagið Ernir til þess að sinna áætlunarfluginu í dag.

Flugstjóri í dag var Þráinn Hafsteinsson. Með honum var Unnur Guðný María Gunnarsdóttir, flugfreyja og Andrea Zingg, þjálfunarflugstjóri. Á móti þeim tók Hálfdán Ingólfsson.

Myndirnar tók Halldór Sveinbjörnsson.

DEILA