Breytingatillögur Viðreisnar við fjárlög

Viðreisn hefur lagt fram breytingatillögur á fjárlögum 2019 til þess að taka á stórum veikleikum í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eins og það lítur út eftir aðra umræðu. Má þar fyrst nefna sáran skort á kaupmáttaraukningu örorku- og ellilífeyrisþega, til samræmis við aðra þjóðfélagshópa, og uppbyggingu hjúkrunarrýma sem kemst hvergi nærri því að uppfylla þörfina sem upp er komin. Verði tillögur Viðreisnar samþykktar má bæta til muna heilbrigðisþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni, stytta biðlista, tryggja til frambúðar rekstur Sjálfsbjargarheimilisins og Krabbameinsfélagsins og á sama tíma skila ríkissjóði yfir 4 ma. kr. aukalega í afgang.

Framlög

Í fyrsta lagi hafa þingmenn Viðreisnar lagt til að lífeyrisþegar njóti að lágmarki 1% kaupmáttaraukningar, sem er sambærilegt við þá aukningu sem aðrir hópar þjóðfélagsins njóta á hverju ári. Ekki er gert ráð fyrir slíkri aukningu í fjárlögum, sem er til þess fallið að draga úr lífsgæðum örorku- og ellilífeyrisþega í samanburði við aðra og auka á misskiptingu í samfélaginu.

Í öðru lagi hafa þau lagt til að Sjúkratryggingar fái 200 millj. kr. framlag til að geta gengið til samninga við sérfræðilækna um fjölgun liðskiptiaðgerða. Er sú fjárveiting til þess fallin að stytta biðlista fyrir slíkum aðgerðum, og vonandi eyða þeim alfarið. Fjölgun slíkra aðgerða myndi spara ríkissjóði fjármagn sem nú fer í endurgreiðslu aðgerða sem framkvæmdar eru erlendis þótt hægt sé að framkvæma þær hér á landi. Þegar fjármálum ríkissjóðs er sleppt og litið er til fólksins, þá er stytting biðlista náttúrlega besta leiðin okkar til þess að draga úr þjáningunni sem fylgir löngum biðtíma eftir aðgerðum, líkleg til að draga úr notkun verkjastillandi lyfja og auka almennt lífsgæði fjölmargra einstaklinga.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að uppbyggingar hjúkrunarrýma verði stóraukin og höfum við lagt til að 500 millj. kr. verði veitt í það. Fjölgað hefur um 100 einstaklinga á biðlistum eftir hjúkrunarrými það sem af er þessu ári. Þessi þróun hefur m.a. leitt til þess að fráflæðisvandi Landspítalans er í áður óþekktum hæðum. Áform ríkisstjórnarinnar um að skera niður fé til uppbyggingar hjúkrunarheimila leiða einungis til þess að vandinn færist  yfir á spítala eða fjölskyldur landsins. Vandinn hverfur ekki og fjölskyldurnar eiga ekki að bíða.

Í fjórða lagi er lagt til að framlög til sjúkrahúsa á landsbyggðinni verði aukin um 150 millj. kr. Aukin framlög ríkisstjórnarinnar til heilbrigðisstofnana landsbyggðarinnar eru góðra gjalda verð en duga þó ekki til að gera þeim kleift að sinna þeirri þjónustu í sínu nærsamfélagi sem krafa er gerð til. Á það sérstaklega við um heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það að efla sjúkrahúsin á landsbyggðinni léttir jafnframt á Landsspítalanum og léttir á sjúklingum að þurfa ekki að ferðast frá heimili sínu til að fá sjálfsagða heilbrigðisþjónustu.

Í fimmta lagi er lagt til að fjárframlög til Sjálfsbjargarheimilisins verði aukin um 59 millj. kr. Starf Sjálfsbjargarheimilisins er einstakt á landsvísu en rekstrarafkoma þess hefur statt og stöðugt versnað. Nú er svo komið að þrátt fyrir stöðugt aðhald þá eru forsendur fyrir áframhaldandi rekstri þess háðar auknum framlögum í fjárlögum. Teljum við nauðsynlegt að mæta þeirri þörf til að tryggja áframhaldandi eflingu á færni skjólstæðinga heimilisins við athafnir í daglegu lífi og stuðning við samfélagsþátttöku þeirra á eigin forsendum.

Að lokum hafa þingmenn Viðreisnar lagt til að framlög til Krabbameinsfélagsins verði aukin um 70 millj. kr. Krabbameinsfélagið sinnir nauðsynlegu starfi til að fækka dauðsföllum af völdum krabbameins, m.a. með snemmbúnum greiningum og forvörnum. Krabbameinsfélagið sinnir skimunum fyrir stjórnvöld á grundvelli vanfjármagnaðs rekstrarsamnings. Til að tryggja áframhaldandi starfsemi félagsins og þeirrar óeigingjörnu vinnu sem aðstandendur þess sinna, þarf ríkisstjórnin að bregðast við ekki síðar en núna.

Lækkun útgjalda

Þótt skemmtilegt sé að standa einungis fyrir útgjaldaaukningu þá væri afar óábyrgt að leggja til aukningar án þess að greina frá því hvernig þær skyldu fjármagnaðar. Til að mæta kostnaðinum leggja þingmenn Viðreisnar í fyrsta lagi til að fjármagni verði ekki veitt til fyrirhugaðrar uppskiptingar velferðarráðuneytisins.  Við það myndu strax sparast 162,3 millj. kr. fyrst ríkisstjórnin telur mikilvægt að skipta upp þessum ráðuneytum er best að þau finni fjármagnið innan ráðuneytisins í stað þess að taka til sín meiri pening.

Í öðru lagi leggur þingflokkur Viðreisnar til að þegar verði horfið frá áformum stjórnvalda um að veita 400 millj. kr. til endurgreiðslna á kostnaði til bókaútgefenda. Íslenska bókamenningin er einn mikilvægasti hluti sögu okkar og menningar, um það verður ekki deilt. Þá verður því heldur ekki neitað að útgáfa bóka standi höllum fæti í þeirri mynd sem hún hefur verið sl. hálfa öld. Það sem mælir hins vegar gegn endurgreiðslum sem þessari er að vandi bókaútgáfunnar stafar síður af háum kostnaði og fremur af breyttri stöðu bókarinnar með tilkomu tækninýjunga. Af þeirri ástæðu er einnig óvíst að hvaða marki endurgreiðslurnar myndu skila sér til neytenda í formi lægra bókaverðs og ólíklegt að verðbreytingar myndu snúa við hlutdeild internetmiðla, rafbóka og hljóðbóka í lestrarvenjum þjóðarinnar i dag.

Þá er enn mögulegt fyrir ríkisstjórnina að fresta áformum sínum um lækkun veiðigjalda um eitt ár til að vanda til verka við breytingar á fyrirkomulagi veiðigjalda og stuðla að víðtækari sátt um þær á þinginu og meðal þjóðarinnar allrar. Veiðigjöld árið 2019 væru áætluð um 12,5 milljarðar króna en í fjárlögum 2019 eru þær áætlaðar 7 milljarðar. Vegna gengislækkunar íslensku krónunnar og lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu krefjast aðstæður ekki lækkunar á veiðigjöldum á þessum tímapunkti. Þeim 5.500 millj. kr. sem munar á milli er betur varið til uppbyggingar þjónustu og greiða niður vaxtakostnað ríkisins.

(fréttatilkynning frá Viðreisn)

DEILA