Árneshreppur: Engin svör frá formanni Framsóknarflokksins

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Í þar síðustu viku sendi starfshópur um brothætta byggð í Árneshreppi frá sér neyðarkall til Samgönguráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins. Þetta var gert opinbert á mánudaginn. Strax í kjölfarið sendi bb.is svohljóðandi fyrirspurn til ráðherrans og aðstoðarmanna hans:

Hver eru svör ráðherra við erindi verkefnisstjórnar verkefnisins Áfram Árneshreppur sem send voru sl föstudag?

Hvernig hyggst ráðherra og/eða ríkisstjórnin bregðast við því sem segir í erindinu „að Því miður hafa svör ríkisstofnana við erindum sveitarfélagsins í flestum tilvikum verið neikvæð, hafi þau fengist á annað borð“ ?

Viðbrögð bárust um kvöldið frá Sigtryggi Magnasyni, einum af aðstoðarmönnum ráðherrans þar sem hann sagðist myndu verða í sambandi daginn eftir, þ.e. síðastliðinn þriðjudag.

Ekkert heyrðist frá honum þann dag og var honum sent ítrekun á miðvikudaginn. Engin viðbrögð hafa fengist enn sem komið er, hvorki frá Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra né aðstoðarmanni hans Sigtryggi Magnasyni.

Það heyrist núna hátt í þögninni.

 

DEILA