Vistkerfi hvala í Kaldfjorden, Noregi

Angelika Renner. Mynd: UW.is

Í Vísindaporti vikunnar föstudaginn 23. nóvember mun gestur Háskólasetursins, dr. Angelika Renner kynna vistkerfisrannsóknir í Kaldfjorden, sem er tiltölulega stuttur fjörður nálægt Tromsø í Norður-Noregi. Undanfarna vetur hafa miklar síldartorfur gengið upp í Kaldfjorden jafnt og í aðra firði í nágrenni hans. Mikill fjöldi hvala hefur fylgt síldinni: hnúfubakur, háhyrningur og langreyður. Þetta hefur haft mikil áhrif á atvinnugreinar á svæðinu eins og fiskeldi og fiskiðnað, en einnig hefur mikil fjölgun í vetrarferðamennsku átt sér stað á svæðinu.

Farið var af stað með könnun til að meta bæði síldarmagnið og fjölda hvala, auk þess að skoða áhrif á athafnir manna og öfugt. Þessi frumkönnun leiddi af sér ýmis verkefni sem hafa að markmiði að verða að samþættri rannsókn á umhverfi og samspili manna og dýra í firðinum. Í erindinu verða þessi rannsóknarverkefni og fyrstu niðurstöður kynntar, en þær benda til þess að í þessum stutta firði sé mikill líffræðilegur fjölbreytileiki á mjög afmörkuðu svæði.

Angelika Renner er haffræðingur að mennt og starfar við Hafrannsóknastofnun (no. Havforskningsinstituttet) í Tromsø í Noregi. Hennar helstu áhugasvið eru rannsóknir á Norður-Íshafi, en einnig í Suður-Íshafi. Rannsóknir hennar beinast fyrst og fremst að samspili hafs, íss og gufuhvolfs og það hvernig eiginleikar sjávar hafa áhrif á vistkerfin. Angelika er gestakennari Háskólaseturs til nokkurra ára og kennir hún námskeið í haffræði, sem er hluti af náminu í haf- og strandsvæðastjórnun.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og er opið öllum. Að þessu sinni fer erindið fram á ensku.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA