Vilja móta eigendastefnu ríkisins með tilliti til bújarða

Fé. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Á bæjarráðsfundi í Ísafjarðarbæ í gær var lögð fram til umsagnar þingsályktunartillaga um mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða. Alþingi hefur ályktað að við mótun almennrar stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins verði sérstaklega fjallað um bújarðir þar sem litið verði til ábúðar, náttúruverndar, ferðaþjónustu og möguleika fólks til að hefja búskap.

Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins, sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Markmið tillögunnar er að málefni bújarða séu höfð að leiðarljósi við mótun almennrar eigendastefnu ríkisins og að stefnan tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða. Sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landssvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landssvæði sé heppilegra að sé í eigu einkaaðila. Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar, en flestar bújarðir og jarðahlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Þá koma jarðakaup útlendinga einnig til sögu en umræða um þau er ekki ný af nálinni. Í janúar 2017 skipaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp með það að markmiði að endurskoða lög og reglur um kaup erlendra aðila á bújörðum á Íslandi. Starfshópnum er ætlað að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Í því sambandi má nefna að eignarhald á landbúnaðarlandi er takmarkað í dönskum jarðalögum og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.

Á 145. löggjafarþingi kom fram í skriflegu svari þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra að ríkissjóður ætti 450 jarðir og að stór hluti þeirra væri nýttur til landbúnaðar. Þá eru í gildi 122 ábúðarsamningar hjá Ríkiseignum, sem annast daglega umsýslu flestra jarðeigna ríkisins. Samkvæmt 12. grein ábúðarlaga ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Fjölmargir leigusamningar hafa verið gerðir um ríkisjarðir þar sem leigutaki býr á jörðinni. Einnig er algengt að jarðir séu leigðar til slægna og beitar til aðila sem búa á aðliggjandi jörðum. Húsakostur er forsenda þess að geta hafið ábúð á jörð og því henta eyðijarðir almennt ekki til ábúðar.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA