Vestfjarðavegur -um vegagerð í Reykhólahreppi

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir frá Reykhólum.

Hugleiðingar um skrif og tal um Vestfjarðarveg.

 

Vegagerðin er búin að ákveða Þ-H leiðina en þá dettur sveitastjórn, þeirri fráfarandi og núverandi það í hug að gera nýja tillögu og fá Norðmenn í þá vinnu! Þar koma fram áætlanir um að betra væri að renna sér út Barmahlíðina og umturna henni enn frekar með 60 m breiðum vegi eins og Þjóðvegir eiga að vera nú til dags, enda veitir ekki af því og þá trúlega hjólreiða stíg samhliða!

 

Ég er ekki á móti vegaframkvæmdum og allra síst jarðgöngum og brúm, varð t.d. mjög fegin þegar nýr og betri vegur kom í Gjána sem er rétt innan við skóginn á  Barmahlíð, þar var oft ófært á vetrum og rann úr veginum er rigndi mikið. Mér er Barmalhlíð mjög kær og þar vex bæði Birkiskógur, kjarr og lyng sem ,,blánar af berjum hvert ár“, sem bæði menn og máleysingjar hafa notið og njóta góðs af. Berjaferðir í Barmahlíð eru ákaflega vinsælar og undirrituð notið ferða þangað, fagurt útsýni, ilmur af gróðri og friðsæld er nokkuð sem aldrei gleymist. Auk hins villta gróðurs var plantað þarna grenitrjám, sem hafa dafnað vel og íbúar svæðisins geta nú fengið sín jólatré. Á Reykhólum var reistur minnisvarði um Jón Thoroddsen f. 5. okt. 1818 á Reykhólum eins og Reykhólasveitungar eflaust vita.

Á þennan minnisvarða er skorið ljóðið „Barmahlíð“ eftir skáldið. Ég læt það fylgja hér með:

Hlíðin mín fríða

hjalla meður græna,

blágresið blíða,

berjalautu væna,

á þér ástar-augu

ungur réð ég festa,

blómmóðir bezta.

 

Sá ég sól roða

síð um þína hjalla

og birtu boða

brúnum snemma fjalla;

skuggi skauzt úr lautu,

skreið und gráa steina,

leitandi leyna.

 

Blómmóðir bezta,

beztu jarðar gæða

gaf þér fjölda flesta

farðir mildur hæða;

hver mun svo, er sér þig,

sálar þjáður dofa,

að gleymi guð lofa?

 

Hlíð, þér um haga

hlýr æ blási andi,

döggvi vordaga

dögg þig sífrjóvgandi!

Um þig aldrei næði,

af þér svo að kali,

vetur vindsvali.

  

Síðan er það Reykjanesið þar sem stutt er á milli fjalls og fjöru. Tún liggja víða beggja megin vegarins, eiga þau að koma undir veg, eru bændur tilbúnir til að fórna þeim?

Fuglalíf er þarna mikið bæði til nytja, yndis og ánægju, hvað um það?

Á það að njóta vafans eins og fólk segir oft nú til dags ef ekkert finnst svarið?

Hvar verður efnið í veginn tekið? Það er ekki lítið sem þarf af slíku.

Hvað með mengun af þessum stóru flutningabílum sem aka á milli landshluta?

Hvernig er að hafa þá í túnfætinum, stutt frá hýbýlum fólks og fénaðar?

 

Ég veit að bændur þurfa vélar og áhöld sem nota jarðolíu og þeir þurfa á þessum verkfærum að halda við sín störf. Að bæta þessari þungu umferð við, því þess er ekki þörf. Þar eru aðrar leiðir færar og leið sem tilbúin er til að hefjast handa eins væri eflaust hægt að fara norðan megin við Reykjanesfjall, eins og nefnt hefur verið en það mun kalla á enn eitt matið sem kostar bæði tíma og peninga, geta Vestfirðingar beðið endalaust?

ÞH leiðin er tilbúin til að framkvæmdir geti hafist og skógur eyðir mengun og hægt er að planta nýjum trjám víða um Vestfirði. Er þessi verðandi Vestfjarðarvegur lentur í sömu kreppu og vegur og brúin yfir Gilsfjörð á sínum tíma?

 

Þá var málið að Rauðbrystingurinn færi í útrýmingarhættu en svo varð ekki. Nú er það Teigskógur, en ef til vill fengju fleiri að njóta hans og sjá en nú er. T.d.fatlað fólk og gamlingjar sem orðnir eru fótafúnir en langar að sjá landið sitt. Það þarf að horfa á landið frá mörgum sjónarhornum og erfitt að svara spurningunni: Hvað á að gera og hvað er best fyrir framtíð lands og þjóðar?

Stundum breytir landið sér sjálft. Það er nóg efni iðrum þess til að breyting gæti orðið á svipstundu. Vonandi verður það ekki í bráð eða valdið slysum.

 

Ég óska sveitungum alls góðs og kær kveðja til ljósubarnanna minna í sveitinni.

 

Kristín Ingibjörg Tómasdóttir, ljósmóðir.

 

 

DEILA