Hej-a Norge, þetta er eitt stórt samsæri! Það var þá rétt hjá Erni Árnasyni í Spaugstofunni forðum daga þegar hann varaði okkur við misvitrum ráðum Norðmanna, sem nú beinast gegn Þ-H leiðinni.
Ég er ekki svo einfaldur að trúa því að það sé hlutlaust mat þegar aðilar velja sér verkfræðistofu og óska eftir útkomu sem er önnur en Þ-H leiðin. Það er þannig þegar þjónusta er keypt af tilteknum aðila þá reynir sá sem hana selur að þóknast þeim sem hana kaupir. Þannig tel ég að þessi norska skýrsla hafi orðið til.
Það er stutt á milli fjalls og fjöru hvort heldur er út Barmahlíðina eða Reykjanesið og vanhugsuð hugmynd að mínu mati að leggja þar veg sem spannar 60 m. Umferð er alltaf neikvæð þar sem fólk býr. Að mati skýrsluhöfunda eru helstu rökin fyrir veginum þau að hann muni hafa góð samfélagsleg áhrif. Í mínum huga eru áhrifin þveröfug og mun ég gera grein fyrir þeim í eftirfarandi sex liðum:
Í fyrsta lagi mun umferðin á þessu svæði verða hröð og einkennast af miklum þungaflutningum. Með aukinni umferð eykst slysahætta, ef hægt er að tala um eitthvað sem er óafturkræft þá eru það líf og limir fólks sem lendir í slysum;
Í öðru lagi mun mikil hljóðmengun hljótast af framkvæmdinni, niður frá umferðinni kemur alltaf til með að bergmála frá fjallinu út Reykjanesið;
Í þriðja lagi geta veður út Reykjanesið verið varasöm. Í norðanáttum myndast gjarnan mjög snarpar vindkviður á svæðinu;
Í fjórða lagi er ljóst að umferð á svæðinu mun hafa veruleg neikvæð áhrif á fjölskrúðugt fuglalíf sem þar er fyrir;
Í fimmta lagi er verið að skerða verulega búsetu þeirra bænda sem þarna búa og styð ég þá heilshugar í baráttu þeirra gegn vegalagningunni.
Í sjötta og síðasta lagi vil ég benda á staði eins og Búðardal og Hólmavík. Ég get ekki séð þau jákvæðu samfélagslegu áhrif sem umferðin hefur haft á þessi bæjarfélög þó hún hafi legið í gegnum þau til margra ára. Í því samhengi er talað um að minni hagsmunir eigi að víkja fyrir meiri hagsmunum. Þessa hugsun skil ég ekki og spyr hver ætlar að meta hagsmuni hvers og eins?
Nokkur orð um Þ-H leiðina sem ég hef alltaf stutt, ekki síst vegna þess að þar er ekki búseta. Svæðið gjörþekki ég eftir að hafa stundað þar smalamennsku til fjölda ára. Í mínum huga er enginn munur á birkikjarrinu þar í samanburði við annars staðar á Vestfjörðum. Það er alls staðar jafn fallegt. Þá hef ég heldur ekki orðið var við að ferðafólk fari mikið um svæðið til að njóta þess enda er það mjög ógreiðfært yfirferðar.
Ég tel að vegalagning um svæðið eigi því eftir að sóma sér vel í þessu umhverfi og verði til þess að fleiri fái að njóta þess en ella, við skulum ekki gleyma þeim sem ekki komast um gangandi. Þá er nauðsynlegt að minna á að framkvæmdir við Þ-H leiðina eru algjörlega óháðar annarri umferð og ljóst að mikil óþægindi munu fylgja vinnu við Þjóðveg 60 út Barmahlíðina og Reykjanesið fyrir íbúa svæðisins. Reykhólar eru í fínu vegasambandi í dag, komst á við þverun Gilsfjarðar, þangað kemur fólk í dag til að njóta kyrrðar og öryggis.
Það er dapurlegt til þess að vita að einstaklingar sem hvorki eru fæddir eða uppaldir á þessu svæði reyni hvað þeir geta að knýja fram svokallaða R-leið óháð kostnaði og gegn vilja megin þorra íbúa á svæðinu. Allt til þess eins að Þ-H leiðin verði ekki farin. Ég ætla rétt að vona og geri þá kröfu að sveitastjórnin kalli til sín sérfræðinga á sviði umferðaröryggismála til að vega saman kosti og galla.
Þá finnst mér löngu tímabært að teknar verði saman upplýsingar um hvað búið er að eyða af almanna fé í sérfræðiálit og skýrslur vegna áforma um vegalagningu á umræddu svæði sem staðið hafa yfir í á annan áratug. Nú er mál að linni. Hefjumst handa við Þ-H leiðina nú þegar. Það skal tekið fram að ég er ekki á móti jarðgöngum.
Með vinsemd og virðingu
Magnús Sigurgeirsson frá Reykhólum