Undir hrauni er ný skáldsaga Finnboga Hermannssonar

Höfundur les fyrir köttinn sinn Egil Indriða Möller. Mynd:Halla Mía.

Fréttamaðurinn og rithöfundurinn Finnbogi Hermannsson hefur sent frá sér bókina  Undir hrauni sem er ástarsaga og gerist í upphafi síðari heimstyrjaldar. Söguhetjan er Reykjavíkurstúlka sem kynnist þýskum skipbrotsmanni af fragtskipinnu Bahía Blanka sem sökk út af Patreksfirði í janúar 1940 og styrjöld þá hafin.  Takast með þeim ástir í Reykjavík og stúlkan heimsækir piltinn í dvalarstað hans austur í Hekluhrauni þar sem hann dylst fyrir breska hernámsliðinu ásamt félaga sínum. Myndi einhver kalla atburðarásina í bókinni með ólíkindum en höfundur styðst við heimildir þar á meðal úr munnlegri geymd gamalla Rangvellinga sem muna vel dvöl drengjanna fyrir austan og er sagan kunn þar um slóðir enda þótt hún hafi aldrei ratað á spjöld sögunnar.

Í bókinni Undir hrauni sem er fornt heiti á jörðinni Selsundi segir líka ögn frá Augústi Lehrmann, þýska piltinum sem flúði til Vestfjarða í upphafi seinna stríðs og duldist víða. Þar á meðal í fylgsni einu við utanvert Ísafjarðardjúp og hefur aldrei verið greint frá því fyrr opinberlega.

Skáldsagan Undir hrauni segir í raun frá ást í meinum heillar heimstyrjaldar og lætur engan ósnortinn.

Útgefandi hennar er forlagið Sæmundur á Selfossi.

DEILA