Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fylgir forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, í opinberri heimsókn til Lettlands sem hófst í gær. Heimsóknin stendur til sunnudagsins 18. nóvember næstkomandi.
Meðal viðburða í ferðinni má nefna opinbera móttökuathöfn við forsetahöllina í Riga, fund með forseta landsins, fund með forseta þingsins og loks fund með utanríkisráðherra.
Þá mun forseti Íslands og umhverfis- og auðlindaráðherra taka þátt í málstofu um samskipti Íslands og Lettlands á sviði menningar, stjórnmála og viðskipta í dag og á morgun taka þeir þátt í viðburðum sem tengjast eitt hundrað ára afmæli lýðveldis Letta.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fundaði að auki með Kaspars Gerhards, umhverfisráðherra Lettlands í Riga í gær og heimsækir í dag Tervete garðinn sem er vinsælt friðlýst svæði suðvestur af Riga.