Fyrir bókaþyrst fólk á leiðinni á norðanverða Vestfirði er hægt að stoppa bara eftir Þröskulda. Það verður nefnilega nóg um að vera á Ströndum um helgina. Fyrir það fyrsta er spilakvöld í Sævangi í kvöld og Lóa frænka hans Jóns á afmæli á morgun. En í öðru lagi þá mæta þjóðþekktir rithöfundar á Kaffi Galdur annað kvöld, laugardaginn 10. nóvember til að lesa upp úr bókum sínum.
Þetta eru þau Auður Ava Ólafsdóttir með bókina Ungfrú Ísland, Bjarni M. Bjarnason með Læknishúsið, Sigurbjörg Þrastardóttir með bókina Hryggdýr og svo Bergsveinn Birgisson með Lifandislífslækur. Viðburðurinn hefst klukkan 20 og allir eru að sjálfsögðu velkomnir.
Rithöfundarnir fjórir leggja svo leið sína á Drangsnes sunnudaginn 11. nóvember. Þar hefst bókaupplesturinn klukkan 13 og stendur til 15 og fer fram á Malarhorni.
En þá er þó aldeilis ekki allt upptalið því á sunnudaginn klukkan 15 verður sögusýningin Strandir 1918 opnuð í Sævangi. Samhliða verður haldin sögustund þar sem fjallað verður um bókmenntir og menningarlíf á Ströndum 1918. Sérstök áhersla verður lögð á ljóð og æfi Stefáns frá Hvítadal, en nú eru einmitt 100 ár síðan fyrsta ljóðabók hans kom út. Elfar Logi Hannesson frá Kómedíuleikhúsinu mætir á svæðið með nýja bók með úrvali ljóða Stefáns og segir frá skáldinu: Allir dagar eiga kvöld.
Einnig verður fjallað um persónulegar heimildir frá þessum tíma og afrek Strandamanna á bókmenntasviðinu, ýmist frá þessum tíma eða þar sem fjallað er um hann.
Svo er líka fært í Árneshrepp eftir að snjó tók upp þó eru hálkublettir á leiðinni.
Sæbjörg
sfg@bb.is