Tálknafjarðarskóli er símalaus skóli

Grunnskólinn á Tálknafirði. Mynd: Tálknafjörður.is

Forsvarsfólk Tálknafjarðarskóla og foreldrar hafa ákveðið að Tálknafjarðarskóli verði símalaus skóli. Foreldrar nemenda í 9. og 10 . bekk studdu það eindregið að skólinn yrði símalaus en tillagan var borin undir þau í foreldraviðtölum að sögn Sigurðar Leóssonar, skólastjóra. Reglurnar eru þannig að ef nemandi kemur með síma í skólann þá er hann geymdur í læstum skáp þar til skóladegi lýkur. Því símarnir eiga einfaldlega að vera heima. Þurfi nemandi nauðsynlega að hringja er það að sjálfsögðu hægt. Nokkrir skólar hafa tekið upp þessa stefnu segir á heimasíðu skólans og nýlega bættust fleiri skólar í þennan hóp eins og Háaleitisskóli á Ásbrú í Reykjanesbæ og Grunnskóli Húnaþings vestra.

Vika er liðin síðan Tálknafjarðarskóli tók upp þessa reglu og Sigurður segir að nemendur hafi verið óánægðir fyrsta daginn en svo hefur ekki borið á því. „Það virðast allir vera sáttir, sagði hann í samtali við BB. „Krakkarnir tala meira saman og einbeitningin er miklu betri hjá þeim. Það er betra fyrir námsárangur því það er ekkert að trufla þau eins og símarnir voru að gera. En þegar vandamálið er ekki til staðar þá er ekki verið að sækja í það.“

Sigurður segir að þetta skref hafi verið auðveldara en kennarar óttuðust. „Við byrjuðum á því að reyna að semja við nemendur um hvernig við ættum að nota símann og bjuggum til umgengisreglur. Það gekk alltaf frekar illa að standa við þær en ég lét það í ljós strax í haust að ég hefði hug á að hafa skólann símalausan. Við bárum svo hugmyndina undir foreldra í foreldraviðtölum og þá voru allir sammála um að taka þetta skref.“

Sigurður sagði jafnframt: „Það er miklu betra að taka svona ákvarðanir í sátt um samfélagið og með samfélaginu því þá verður árangurinn betri. Ef krakkarnir vita að foreldrarnir standa líka á bak við þessa ákvörðun þá eru þau sáttari við hana.“

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA