Þegar landsmenn horfa til næstu framtíðar og vonast eftir betri lífskjörum beinist athyglin fljótlega að
verðmætasköpun með hagnýtingu auðlindanna. Sjávarútvegurinn sem byggður er á veiðum á villtum fiski er kominn að mörkum þess sem vísindamenn telja mögulegt. Það er svo umdeilanlegt hvort ekki megi sækja meiri afla í sjó en vísindamenn ráðleggja, en ekki er í augsýn að svo verði gert. Svo þar er ekki von um auknar teknur umfram það sem raunverðshækkun á erlendum mörkuðum gefur tilefni til. Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega frá 2010 og hefur staðið undir ótrúlegri kaupmáttaraukningu síðustu ár. Það eru minni líkur á því að vöxturinn haldi áfram en hins vegar eru góðar líkur á því að það umfang sem orðið er geti haldist í meginatriðum.
Raforkuframleiðsla er með hverju ári að verða arðbærari atvinnuvegur með stöðugt hækkandi verði fyrir raforkuna. Tekjur af sölu til stóriðju hafa í heildina tekið verið góðar og hið opnbera og almenningur hefur hagnast um hundruð milljarða króna. Allar horfur eru á hækkandi verði á heimsvísu fyrir raforkuna. Það skapar sóknarfæri en þau takmarkast enn sem komið er við nýtingu orkunnar hér innanlands. Það eru töluverðar pólitískar hindranir í veginum fyrir frekari stóriðju, jafnvel umhverfisvæna stóriðju, þannig að næsta áratuginn er ekki líklegt að þangað verði sótt bætt lífskjör fyrir almenning. Í raun virðast vera meiri tækifæri í því að flytja raforkuna úr landi til sölu erlendis en í því að fá erlenda aðila til að kaupa raforkuna og nýta hana innanlands. Þar eru hins vegar ýmis ljón í veginum og ólíklegt að pólitísk umræða um sæstreng til útlanda verði til lykta leidd næsta áratuginn.
Þegar horft er fram í tímann, jafnvel aðeins áratug, er samt töluverð óvissa og margt getur farið öðruvísi en nú er helst talið að verði. En það breytir því ekki að það þarf að marka stefnu hverju sinni sem líklegust er til þess að standa undir bættum lífskjörum.
Laxeldið og þjóðarhagur
Þar stendur laxeldið upp úr öllum öðrum möguleikum. Tækifærin eru slíkt að það væri ábyrgðarhluti að láta þau sem vind um eyru þjóta. Atvinnugreinin er umhverfisvæn og með lágt kolefnisspor í samanburði við aðra matvælaframleiðslu. Aðstæður eru góðar hérlendis og erlendir aðilar vilja fjárfesta mikið fé í uppbyggingu laxeldis á Íslandi.
Í fyrra voru leyfisbeiðnir og áform fyrir 160 þúsund tonna ársframleiðslu (Byggðastofnun, 2017). Útflutningstekjur af þeirri framleiðslu yrðu a.m.k 160 milljarðar króna. Verð á hverju kg af afurðum er um 900 kr. Það er langleiðina upp í útflutningstekjur af öllum sjávarútvegi og 60% meira en tekjurnar af þorskinum mikilvægustu afurð sjávarútvegsins. Þrír prófessorar hafa vakið athygli á því að þeirra athuganir sýni að auðlindaarðurinn í norsku laxeldi hafi árið 2016 verið um 260 kr. á hvert framleitt kg. Heildarfjárhæð auðlindaarðsins í Noregi er um 360 milljarðar króna af framleiðslu á 1,5 milljón tonnum af laxi. Mikill hagnaður er af laxeldi í sjó. Væntanlegur aðlindaarður af 160 þúsund tonna ársframleiðslu yrði um 50 milljarðar króna.
Það er pólitísk ákvörðun hvort og þá hvernig hið opinbera sækir til sín hlut af þessum arði þegar hann er orðinn að veruleika eftir uppbyggingu greinarinnar. Líklegt er að stærstur hluti arðsins upp á 50 milljarða króna renni til hins opinbera.
Laxeldið og Vestfirðir
Laxeldið er ekki síður mikilvægt fyrir Vestfirði en þjóðarhag. Af 70 þúsund tonna laxeldi á Vestfjörðum leiddi að um 1500 störf bein og óbein myndu verða til á Vestfjörðum. Launagreiðslur næmu um 10 milljörðum króna. Íbúafjöldinn á Vestfjörðum myndi tvöfaldast. Til viðbótar kæmu svo áhrifin af auðlindaarðinum sem gæti verið um 20 milljarðar króna. Eðlilegt er að meirihluti arðsins renni heim í hérað til samfélaganna þar. Þegar þessar þjóðhagsstærðir eru hafðar á borðinu standa öll rök til þess að taka laxeldinu tveimur höndum og nýta tækifærið. Vestfirðir geta aftur orðið vaxtarsvæði og 35 ára tímabili stöðnunar og hnignunar myndi ljúka.
Hörð andstaða kemur frá stangveiðirétthöfum. Sú afstaða er fjárhagslegs eðlis. Fjárhagslegur hagsmunirnir eru mjög misstórir. Annars vegar laxeldi með allt að 160 milljarða króna útflutningstekjum og hins vegar stangveiðin með minna en 2 milljarða króna beinar tekjur. Litlar líkur eru á því að laxeldið skaði stangveiðina, en fari svo að einhverju leyti, er eðlilegt að laxeldið bæti tjónið. Heildarhagsmunirnir eru alltaf augljóslega þeir að laxeldið eykur þjóðarhag og alveg sérstaklega hag Vestfirðinga.
Kristinn H. Gunnarsson