Stofnuðu Feministafélag í Menntaskólanum

Nokkrir félagar og kennarar í Feministafélagi Menntaskólans á Ísafirði. Mynd: Misa.is

Á kvennafrídaginn, 24. október síðastliðinn var haldinn stofnfundur Feministafélags Menntaskólans á Ísafirði. Um 20 manns mættu á fundinn og tóku 15 af þeim þátt í stjórnarkosningu og teljast þar með stofnmeðlimir félagsins. Í stjórn voru kosin þau Andri Fannar Sóleyjarson, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Eyþór Smári Sigurðsson Ringsted, Ína Guðrún Gísladóttir og Katla Vigdís Vernharðsdóttir. Var stjórnin kosin til eins árs. Á fundinum var samþykkt ályktun um að ennþá væri langt í land í jafnréttismálum innan veggja skólans og sett voru markmið sem stjórnin, ásamt félagsmeðlimum, munu vinna að í sameiningu.

BB hafði samband við tvo stofnfélaga í hópnum og spurði hvers vegna þau hefðu viljað stofna Feministafélag? „Einn nemanda skólans sendi fyrirspurn á nemendafélagið um hvort að það væri femínistafélag í skólanum. Ég svaraði henni að svo væri ekki og þess vegna fórum við beint í að skipuleggja stofnfund ásamt nokkrum öðrum áhugasömum stelpum,“ sagði Katla Vigdís Vernharðsdóttir.

„Femínistafélög eru orðin nokkuð algeng í menntaskólum og fannst okkur alveg fráleitt að ekkert bakland væri til fyrir femínista í menntaskólanum á Ísafirði,“ bætti Katla Vigdís við. „Því það er einmitt það sem að Femínistafélagið á að vera. Stuðningsnet og bakland fyrir femínista og vettvangur fyrir uppbyggjandi umræður um málefni sem tengjast femínisma. Á stofnfundinum var kosið í fimm manna stjórn og lög og stefnuskrá félagsins samþykkt. Stofnmeðlimir voru 17 en síðan þá erum við orðin 26.“

Andri Fannar Sóleyjarson er annar stofnmeðlima Feministafélagsins. „Mér finnst mjög spennandi að taka þátt í þessu og ég sá þarna tækifæri til að koma skoðunum mínum á framfæri,“ sagði hann í samtali við BB.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA