Skipulagsstofnun segir í svari við fyrirspurn bb.is að aðalskipulagsbreytingar Reykhólahrepps vegna Þ-H leiðarinnar hafi verið vinnslutillögur og nú liggi fyrir tillögur að öðrum valkostum en „fjallað hefur verið um til þessa við mat á umhverfisáhrifum og í vinnslustillögu aðalskipulags.“ Þá telur Skipulagsstofnun að sveitarstjórn geti innheimt gjald af Vegagerðinni vegna skipulagsvinnu eða fengið styrk úr skipulagssjóði.
Sendar voru tvær spurningar og fylgja þær hér ásamt svörum Skipulagsstofnunar.
- Hvers vegna er nauðsynlegt að fara í valkostagreiningu um leiðaval? Hefur ekki í umhverfismati farið fram greining á mismunandi leiðum?
Svar: „Það er rétt að mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar í Reykhólahreppi hefur farið fram, sbr. matsskýrslu Vegagerðarinnar og álit Skipulagsstofnunar frá 2017. Þar var fjallað um tiltekna valkosti um legu vegarins. Næsta skref í ákvarðanatöku um veginn er að sveitarfélagið taki ákvörðun um legu vegarins í aðalskipulagi. Fyrir um ári síðan lagði Reykhólahreppur fram vinnslutillögu aðalskipulags til kynningar fyrir íbúum og öðrum hagsmunaaðilum þar sem bornir voru saman valkostir um tvær veglínur, Þ-H og D2. Eftir vinnu Multiconsult og Vegagerðarinnar nú í sumar og haust liggja fyrir tillögur að öðrum valkostum en fjallað hefur verið um til þessa við mat á umhverfisáhrifum og í vinnslustillögu aðalskipulags. Með hliðsjón af kröfum skipulagslaga (sjá m.a. 12. gr. þeirra) og laga um umhverfismat áætlana um samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila og um umhverfismat valkosta er að mati Skipulagsstofnunar eðlilegt næsta skref í aðalskipulagsferlinu að taka saman og kynna valkostaskýrslu þar sem raunhæfir legukostir eru bornir saman og á grundvelli þess síðan valin sú veglína sem fest verður í aðalskipulagi. Slíkur samanburður valkosta er liður í að bæta grundvöll íbúa og sveitarstjórnar til að taka upplýsta afstöðu til málsins.“
2.
- Mun Skipulagsstofnun greiða kostnað vegna valkostagreiningarinnar og mun stofnunin einnig greiða kostnað vegna ferðar fulltrúa Multiconsult til landsins og vinnu hans?
Svar: „Varðandi kostnað við mótun stefnu um legu Vestfjarðavegar í aðalskipulagi þá hefur Skipulagsstofnunin bent Reykhólahreppi á tvo möguleika:
Sveitarstjórn getur innheimt gjald af framkvæmdaraðila (Vegagerðinni) vegna skipulagsvinnu sem nauðsynleg er vegna framkvæmdar á vegum framkvæmdaraðila í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins, sbr. 2. og 3. mgr. 20. gr. skipulagslaga. Sveitarstjórn getur skilgreint vinnuna framundan sem fyrsta áfanga við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins og fengið framlag úr Skipulagssjóði til verkefnisins. Slíkt framlag nemur að jafnaði helmingi kostnaðar, en getur numið hærri hlutdeild þegar aðstæður eru sérstakar, sbr. 3. tl. 18. gr. skipulagslaga.“