Línubáturinn Núpur BA sem strandaði rétt fyrir utan Patreksfjörð í gærkvöld er kominn á flot. Engan af 14 áhafnarmeðlimum sakaði við strandið en 8 þeirra fóru í land strax í nótt. Ekki liggur fyrir hvers vegna Núpurinn strandaði en hann var á leiðinni úr höfn þegar slysið varð.
Varðskipið Þór hélt vestur í gær eftir að tilkynning um slysið barst þeim. Fjórir bátar reyndu í gær að draga Núpinn á flot en árangurs. Í morgun var hærra flóð en í gærkvöld svo greiðlega gekk fyrir Þór að ná skipinu úr strandi. Engar verulegar skemmdir eru sjáanlegar að svo stöddu og engin olía hefur lekið. Björgunarskipið Vörður er nú að draga Núpinn í land þar sem kannað verður frekað hvaða skemmdir eru.
Sæbjörg
sfg@bb.is