Ljósmyndasamkeppni sem er opin öllum

Steinunn Ása Sigurðardóttir og Ásta Kristín Pjetursdóttir stofnuðu skólablaðið Lýð.

Það er aldrei ein báran stök eða þrjár í kyrrstöðu á Flateyri. Nú efnir Lýður, nýstofnað skólablað Lýðháskólans á Flateyri til ljósmyndasamkeppni sem opin er öllum Vestfirðingum. Þema keppninnar er: „Heima“ og verðlaunin felast í því að vinningshafinn fær myndina sína útprentaða á striga. Vinningsmyndin mun einnig verða sett upp á vegg í Lýðháskólanum á Flateyri og fimm bestu myndirnar verða birtar í Lýð. Dómnefnd skipa Haukur Sigurðsson, Júlía Björnsdóttir og Ágúst Atlason.

Það eru þær Steinunn Ása Sigurðardóttir og Ásta Kristín Pjetursdóttir lýðháskólanemar sem standa á bak við skólablaðið. Steinunn segir að hugmyndin hafi kviknað frekar snemma hjá henni og þegar hún sótti áfanga í skólanum sem heitir Sögur og salt og Huldar Breiðfjörð kennir, þá hafi hún ákvað að fá Ástu með sér í lið og láta hugmyndina verða að veruleika. „Við höfum svo verið að skipuleggja útgáfu blaðsins síðan þá,“ sagði Steinunn í samtali við BB.

„Efni blaðsins er í vinnslu og þar verða bæði greinar sem við skrifum sjálfar sem og aðrir nemendur, auk ljóða, ljósmynda og ýmiss annars sem nemendur skólans kunna að vilja koma á framfæri. Við viljum einnig bjóða samfélaginu að eiga svolítinn þátt í blaðinu og höfum því ljósmyndakeppnina opna öllum þeim sem vilja taka þátt. Við höfum einnig boðið nemendum grunnskólans á Flateyri að koma efni á framfæri í blaðinu,“ segir Steinunn og það má velta fyrir sér hvort blaðið verði ekki bara efni í tímahylkið sem Eyþór Jóvinsson er að safna í.

Steinunn og Ásta gera ráð fyrir að fyrsta tölublað Lýðs komi út í samfélagsviku skólans sem verður haldin 10.-14. desember. Steinunn segir jafnframt að hún sé mjög ánægð í Lýðháskólanum. „Ég finn það sjálf að ég er að blómstra á mörgum sviðum og prófa margt nýtt og ég held að flestir nemendur myndu segja það sama. Námið er ótrúlega fjölbreytt og opnar augu okkar fyrir alls konar möguleikum. Ég er á brautinni Hugmyndir, heimurinn og þú, þar sem við prófum okkur áfram á ýmsum skapandi sviðum og ég er þegar búin að læra margt sem ég tel mig geta nýtt mér í leik og starfi. Mér finnst líka æðislegt að prófa að búa á Flateyri, hér er minna stress og eins og Helena skólastjóri segir þá er lífið í aðeins öðrum takti. Mér finnst það henta mér rosalega vel og get vel hugsað mér að búa á Vestfjörðum í framtíðinni. Mæli klárlega með lýðháskóla fyrir alla,“ segir Steinunn að lokum og það eru ekki dónaleg meðmæli sem þessi nýji skóli fær frá nemanda sínum.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA