Lax- og silungsveiði: 4,9 milljarðar króna

Laugardalsá í Ögursveit.

Í gær kom út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um efnahagslegt virði stangveiða. Það er Landssamband veiðifélaga sem óskaði eftir því við Hagfræðistofnun að skýrslan yrði gerð og greiðir það hluta af kostnaðinum við skýrslu.

Skýrslan er byggð á tveim rannsóknum. Upplýsingar um tekjur veiðiréttarhafa og kostnað þeirra fengust að mestu beint frá veiðiréttarhöfum. Í öðru lagi var ábati veiðimanna metinn. Þrjú stangveiðifélög sendu öllum félagsmönnum sínum hlekk sem veitti aðgang að spurningum um ferðakostnað þeirra, tekjur og fleira. Skýrslan var rýnd af tveim sérfræðingum í kostnaðar- og nytjagreiningu og auðlindahagfræði.

Niðurstaða skýrslunnar er að greiðslur stangveiðimanna til veiðiréttarhafa hafi verið 4.900 milljónir króna á þessu ári 2018. Þær voru 2004 um 1.150 milljónir króna sem nemur um 2.2 milljörðum á verðlagi nú. Raunhækkunin er um 120% á þessu árabili.

8,7 milljarðar króna landsframleiðsla

Fyrir utan verð veiðileyfa er beinn kostnaður innlendra veiðimanna af veiðum talinn vera a.m.k. 2,9 milljarðar króna árið 2018 og beinn kostnaður erlendra veiðimanna a.m.k. 2,2 milljarðar króna. Við þetta bætast fjárfestingar í veiðihúsum, laxastigum og fleira, sem hér eru taldar 1 milljarður króna á ári. Samtals má því rekja a.m.k. 11 milljarða króna útgjöld beint til lax- og silungsveiða hér á landi árið 2018. Hluti af útgjöldunum rennur til innflutnings. Eftir að innflutningur hefur verið dreginn frá stendur eftir 8,7 milljarða kr. landsframleiðsla á Íslandi sem rekja má beint til lax- og silungsveiða. Hafa beinu áhrifin aukist um 160% frá 2004.

8,7 milljarðar króna um 0,3% af landsframleiðslunni.

Í skýrslunni er lagt mat á verðmæti veiðanna sem auðlindar fyrir Íslendinga. Þá er rekstrarhagnaður eigenda veiðiréttar núvirtur ásamt ábata innlendra veiðimanna. Fyrri liðurinn, hagnaður eigenda veiðiréttar er talinn vera 70 milljarðar króna. Ábati innlendra veiðimanna er greiðsluviljinn umfram það sem þeir greiða fyrir veiðileyfin er talinn vera tæpir 100 milljarðar króna.

Núvirðingin á öllum framtíðarábata ræðst verulega af ávöxtunarkröfunni. Hún er 4,5% raunávöxtun af arðgreiðslum veiðirétthafa og 3,5% raunávöxtun af ábata veiðimanna. Sé ávöxtunarkrafan 1% lægri lækkar verðmætið um 50 milljarða króna en ef krafan lækkan um 1% hækkar verðmætið upp í 300 milljarða króna.

Vestfirðir : 58 milljónir króna

Þýðing lax- og silungsveiða er mjög mismikil eftir landshlutum. Langmest er hún á Vesturlandi. Þar eru tekjur veiðirétthafa og leigufélaga sem nemur 69% af launatekjum og hagnaði í landbúnaði. Á Vestfjörðum er þetta hlutfall 9% og tekjur veiðirétthafa eru 58 milljónir króna af launatekjum og hagnaði í landbúnaði í fjórðungnum.

DEILA