Landvernd hefur mótmælt því að sett voru lög sem heimiluðu sjávarútvegsráðherra að gefa úr bráðabirgðarekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækjanna Arnarlax og Arctic Sea Farm í kjörfar úrskurðar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Auður Anna Magnúsdóttir var innt eftir því hvort Landvernd sé almennt andsnúin því að unnt sé að gefa út bráðabirgðaleyfi sem gildi meðan skorið sé úr um lögmæti úrskurðar ÚUA eða lagfærðir annmarkar eða hvort samtökin styðji bráðabirgðaleið en telji framkvæmda í þessu tilviki áfátt.
Auður svaraði því til að: „Við leggjum mikla áherslu á það að ekki hafa komið fram nein gögn sem réttlæta þessa meðferð sem málið fékk. Einnig að það er mjög skrýtið newspeak að tala um að þetta hafa eingöngu snúist um formgalla á leyfunum þegar hæstiréttur hefur úrskurðað um það að umhverfismat án kostamats sé ógilt umhverfismat. Möguleikar almennings og samtaka hans til þess að koma að opinberri ákvarðanatöku sem Árósasamningurinn á að tryggja, er ein af grunnstoðum virkrar umhverfisverndar. Við megum þess vegna ekki taka ákvarðanir á þann hátt sem þarna var gert.“
Þá var hún spurð að því hvernig Landvernd sæji fyrir sér að bregðast við eftir úrskurð ÚUA og sérstaklega ef dómstólar dæma nefndinni í óhag.
Svar hennar var að: „Úrskurðarnefndin benti sjálf á leið sem hefði mátt fara til þess að ekki hefði þurft að koma til stöðvunar á þeirri starfssemi fiskeldisfyrirtækjanna sem kærðu leyfin náðu til. Það hefði auðvitað alltaf átt að reyna þá leið áður en kom til svona valdbeitingar eins og lagasetningin var.“
Hér vísar formaður Landverndar til lokaorða í úrskurði úrskurðarnefndarinnar þegar nefndin hafði því að fresta réttaráhrifum af niðurfellingu leyfanna. Þar segir:
„Með þá miklu hagsmuni í huga sem hér um ræðir þykir rétt að vekja athygli á að í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er að finna heimildir til handa ráðherra, ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, til að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Enn fremur að taki Matvælastofnun ákvörðun um að stöðva starfsemi rekstraraðila skv. 21. gr. c. laga nr. 71/2008 þá er sú stjórnvaldsákvörðun kæranleg til ráðherra skv. 2. mgr. i.f. 4. gr. laganna, sem getur eftir atvikum frestað réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar.“