Í síðustu viku birtum við á BB þraut frá Byggðasafni Vestfjarða þar sem lesendur áttu að giska á hvernig safnmunur einn var notaður fyrr á tíðum. Ýmsar ágiskanir bárust. Einn hélt að þetta væri skegghlíf, annar reiknaði þá með að hún væri prússnesk. Þriðji hélt að þetta væri kyskhetbelti sem blaðamaður kaus að þýða sem skírlífsbelti. Eitthvað var þó þetta tengt sjómennsku og alveg spurning hvort skírlífsbelti hafi nokkuð þurft að koma þar til sögunnar.
Nokkrir giskuðu samt rétt og einn var með betra svar en aðrir. Það var hann Halldór Árnason á Mýrum á Patreksfirði. Hann skrifaði: „Þetta kemur í stað stýrissveifar á árabát. Vinstra gatið, eins og þú horfir á myndina, er fyrir stýristaum. Þegar þú togar í hann, þá ertu að beygja í stjór. Þegar þú togar í hægra bandið ferðu í bak. Ég tek það fram að böndin voru ekki tvö, heldur eitt. Stýristaumurinn liggur í sitt hvort augað. Maður situr í skutnum á bátnum og heldur í stýristaumana, stýrið er
fyrir aftan þig.“
„Á nútímamáli þá væri sagt að þetta kæmi í staðinn fyrir stýrismaskínuna. Fyrsti báturinn hjá mér, var með hliðstæðum búnaði, þ.e.a.s. stýrissveif. Hún var til á tvo vegu; smokkaðist ofaná stýrið, eins og hún gerir þarna, eða inn í stýrið eins og var undir lok tímans, þegar þessi búnaður var við lýði. Ég býst við að þetta sé af norskum bát.“
Halldór sagði einnig frá því að kappróðrarbátarnir á Patreksfirði sem eru úr tré og smíðaðir árið 1983, þeir eru með samskonar búnaði og lýst er hér að ofan.
Báturinn sem Halldór átti með bróður sínum Þórði Steinari hét Kópur BA 81. Kópur var 42
ára gamall þegar bræðurnir eignuðust hann árið 1971 en þetta var fyrsti bátur þeirra bræðra. Gísli Jóhannsson skipasmiður á Bíldudal smíðaði Kóp sem var 2,9 tonn að stærð, en hér má sjá viðtal við Gísla frá árinu 1945. Halldór segir að á myndinni af bátnum sést að verið er að stjórna stýrinu með fætinum. „Venjulega var þó setið á þóftunni, með stýrið í höndunum eða stýristaumar notaðir. Þá var hægt að vera inni í stýrishúsinu eða jafnvel fyrir framan það.“
Stjórnvölurinn frá Byggðasafni Vestfjarða kemur aftur á móti frá farmskipinu Constanse, sem slitnaði upp í vestanstormi þann 10.júní 1899 og rak upp í fjöru í Neðsta kaupstað á Ísafirði. Skipsmunir voru boðnir upp í sama mánuði. Skipið var 110 tonn og því má gera því skóna að sannkallað bálviðri hafi skollið á. En hér má lesa nánar um atvikið.
Næsta gripaþraut verður birt á morgun og lesendur eru hvattir til að leyfa börnunum líka að giska og senda svör á sfg@bb.is
Sæbjörg